Rannsaki spillingu hjá ESB líka

AFP

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins (ESB) ætti að fjalla um spillingu í stjórnsýslu sambandsins í næstu skýrslu sinni um spillingu í ríkjum þess. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu í dag frá Evrópska umboðsmanninum en embættið hefur það hlutverk að taka við kvörtunum frá borgurum ESB í garð stofnana sambandsins.

Umboðsmaðurinn, Emily O'Reilly, fagnar skýrslu framkvæmdastjórnarinnar um spillingu í ríkjum sambandsins, þar sem fram kemur að spillingin sé „yfirgengileg“, en telur rétt að hafa sérstakan kafla um stjórnsýslu ESB í næstu skýrslu. Haft er eftir O'Reilly í tilkynningunni að stjórnsýsla sambandsins verði að uppfylla ýtrustu kröfur í þeim efnum. Einkum og sér í lagi þegar komi að gegnsæi, hagsmunaárekstrum og opinberum útboðum. Í flestum tilfellum standi stofnanir ESB þó vel að vígi í þessum efnum samanborið við ríkisstjórnir margra ríkja sambandsins.

Fram kemur í tilkynningunni að embætti Evrópska umboðsmannsins fái eftir sem áður margar kvartanir vegna stofnana ESB þar sem kvartað sé yfir skorti á gegnsæi, meintum hagsmunaárekstrum, meintum óeðlilegum tengslum á milli embættismanna sambandsins og fulltrúa einkaaðila og fleiri slíkum málum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka