Segja að dregið hafi úr ofbeldinu

Þrátt fyrir að herinn haldi því fram að dregið hafi úr ofbeldinu í Mið-Afríkulýðveldinu virðist sem frásögnum beri ekki saman því að minnsta kosti 75 hafa dáið í bardögum í bænum Boda.

Franski herforinginn Édouard Guillaud heimsótti höfuðborg landsins, Bangui, í gær og sagði hann að lokinni heimsókninni að dregið hefði úr bardögum milli stríðandi fylkinga.

Tæpt ár er síðan Seleka-uppreisnarmenn steyptu forsetanum, Francois Bozize, af stóli. Af honum tók við Michel Djotodia, núverandi forseti, sem leysti upp Seleka, en margir meðlima hópsins héldu áfram að eigin frumkvæði og hrylltu borgara með morðum, nauðgunum og ránum. Til að mæta ofbeldismönnunum mynduðu kristnir eigin baráttuhópa, sem leiddi til aukinna átaka í landinu.

Um 1.600 franskir hermenn eru að störfum í landinu og um 5.500 liðsmenn friðargæslusveita Afríkubandalagsins. 

Cassien Kamatari, prestur í Boda, segir að ofbeldið sé enn mikið þar. Um 1.500 manns hafi leitað skjóls hjá söfnuði hans vegna átaka milli kristinna og múslíma.

Um 80% íbúar landsins eru kristin en stærstur hluti múslíma í landinu býr í norðurhluta þess.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert