Sá blautasti í 250 ár

Tugir þúsunda Breta eru án rafmagns eftir að óveður gekk yfir í nótt. Vitað er um eitt dauðsfall í óveðrinu. Veturinn er orðinn sá blautasti á Bretlandseyjum í 250 ár.

Um 80 þúsund heimili eru án rafmagns og er ástandið verst í Wales. Ástandið hefur þó skánað síðan í gærkvöldi er 150 þúsund heimili voru án rafmagns en starfsmenn orkuveitunnar voru að störfum í alla nótt.

Einn maður lést af völdum raflosts er hann reyndi að færa tré sem hafði fallið á rafmagnslínu og slegið út rafmagni í Wiltshire.

Vindhraðinn fór í 45 metra á sekúndu í hluta Wales og Englands í gærkvöldi og nótt. Von er á að vatnshæðin í Thames eigi eftir að hækka enn frekar og muni verða sú hæsta í sextíu ár. Það þýðir að hætta er á flóðum í fjölmörgum bæjum og þorpum vestur af Lundúnum í dag. Frá því í desember hefur flætt inn í rúmlega 5.800 hús í Bretlandi vegna úrkomunnar undanfarna mánuði.

Veðurstofa Bretlands gaf í gær út hæsta viðbúnaðarstig vegna stormsins sem var í vændum.  Spáð er 70 mm úrkomu á morgun í Suðvestur-Englandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert