Hótar hungurverkfalli vegna tölvuleikja

Norski fjöldamorðinginn Anders Breivik.
Norski fjöldamorðinginn Anders Breivik. AFP

Norski fjöldamorðinginn Anders Breivik hefur hótað því að fara í hungurverkfall fái hann ekki aðgang að betri tölvuleikjum. Fram kemur í frétt AFP að Breivik telji aðstæður sínar í fangelsinu þar sem hann dvelur vera kvalræði en hann myrti 77 manns í júlí 2011 í Osló og eyjunni Útey í nágrenni borgarinnar.

Krafan er ein af 12 slíkum sem koma fram í bréfi sem Breivik sendi fangelsisyfirvöldum í Noregi í nóvember síðastliðnum en AFP hefur bréfið undir höndum. Kröfurnar ganga meðal annars út á betri aðstæður til daglegra gönguferða og meira frelsi til þess að eiga í samskiptum við umheiminn. Í þeim efnum hefur hann vitnað í evrópsk mannréttindalög. Ennfremur að PlayStation 2 leikjatölvunni hans verði skipt út fyrir PlayStation 3 tölvu og aðgang að fleiri fullorðinsleikjum sem hann fái að velja sjálfur.

Breivik vill ennfremur að vikulegir vasapeningar hans verði tvöfaldaðir úr 300 norskum krónum í 600 krónur. Aðallega til þess að standa undir kostnaði við bréfaskriftir. Þá telur hann sig eiga rétt á meiri afþreyingu en aðrir fangar í fangelsinu í Skien, þar sem hann afplánar 21 árs dóm, vegna þess að hann sé í meiri einangrun en þeir. Þá vill hann að daglegri líkamsleit á sér verði hætt og fá aðgang að venjulegri tölvu.

Fram kemur í bréfi sem Breivik sendi fangelsisyfirvöldum í lok janúar síðastliðins að fyrst ekki hafi verið orðið við kröfum hans sé hungurverkfall eina úrræði hans. Hungurverkfallið hætti ekki fyrr en dómsmálaráðherra Noregs og yfirmaður fangelsismála landsins hætti að koma verr fram við hann en dýr. Hann myndi brátt tilkynna hvenær hungurverkfallið hæfist.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert