Faðmaði dóttur sína innilega

Sjómaður sem segist hafa verið á reki um Kyrrahafið í 13 mánuði, fékk höfðinglegar móttökur hjá fjölskyldu sinni er hann kom heim í gær. Tár, faðmlög og erfiðar spurningar einkenndu fagnaðarfundina.

„Ég er bara svo hamingjusamur að vera kominn aftur hingað til fjölskyldunnar,“ sagði Jose Salvador Alvarenga, er hann var loks kominn til þorpsins síns í El Salvador.

Foreldrar hans biðu hans með tárin í augunum. Þá biðu hans einnig eiginkona, Arely og unglingsdóttir, Fatima. 

„Ég er ánægur að sonur minn er nú kominn heim. Fyrir mér er þetta eins og hann sé endurfæddur,“ sagði faðir hans. 

 Alvarenga er 37 ára. Hann kom að Marshall-eyjum 30. janúar og sagðist hafa lifað af 13 mánuði á sjó á litlum báti. Hann sagðist hafa rekið frá ströndum Mexíkó í óveðri síðla árs 2012.

Hann hefur ekki komið til heimabæjar síns í átta ár. Þá fór hann að heiman og til Mexíkó þar sem hann hóf að veiða hákarl og rækjur. Dóttir hans varð eftir í El Salvador. Hún er nú unglingur.

Læknar hans segja að hann þjáist af hræðslu við sjóinn eftir hrakfarirnar. Hann gæti fengið áfallastreituröskun. 

Alvarenga faðmaði dóttur sína þétt að sér. Hann sagðist ekki einu sinni hafa þekkt hana er hann sá hana.

„Hún er orðin svo stór,“ hvíslaði hann. Fatima man líka lítið eftir föður sínum. „En ég elska hann svo mikið, ég vil að hann verði alltaf hjá mér.“

Eiginkona Alvarenga, Arely, segist mjög ánægð að fá hann aftur en þau slitu sambandi sínu er hann flutti til Mexíkó.

„Ég veit ekki hvort ég mun setjast hér að. Ég vil þakka öllum fyrir stuðninginn. Ég er enn slappur og þreyttur,“ sagði hann. 

Læknar segja að Alvarenga þurfi að fara í endurhæfingu. Hann sé máttfarinn og hafa skrifað upp á þunglyndislyf fyrir hann. 

En í gær var Alvarenga glaður. Hann hló og faðmaði alla.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert