Dóra landkönnuður kom til bjargar

Jose Salvador Alvarenga
Jose Salvador Alvarenga AFP

Rannsóknir á veðuraðstæðum benda til þess að frásögn skipbrotsmannsins Jose Salvador Alvarenga um hvernig hann komst til lands á Marshall-eyjum sé sönn.

Alvarenga segist hafa verið á reki um Kyrrahafið í 13 mánuði en hann fannst sofandi í fjörunni á Marshall-eyjum í lok janúar eftir 12.500 km ferðalag. 

Hann er 37 ára gamall og frá El Salvador en fór á hákarlaveiðar frá smábæ í Mexíkó í desember 2012. Vonskuveður skall á og hann og félaga hans tók að reka á haf út.

Alvarenga segist hafa veitt sér til matar, m.a. skjaldbökur, fiska og fugla. Félaga hans hafi hins vegar ekki tekist að melta skjaldbökublóðið og hráa fiskinn og látist úr ofþornun. Hann hafi losað sig við líkið í hafið.

Samkvæmt rannsókn vísindamanna við háskólann í Hawaii benda útreikningar til þess að saga hans geti staðist hvað varðar vind og sjávarföll. 

Amy Libokmeto og Russell Laijedrik, sem eru einu íbúarnar á eyjunni Eneaitok skammt frá þar sem Alvarenga kom að landi segjast hafa heyrt hróp og fundið Alvarenga á strönd nærliggjandi eyju. Væntanlega eru þau fyrstu manneskjurnar sem hann hafði séð í marga mánuði enda hafði eins dags sjóferð breyst í þrettán mánaða langt ferðalag.

Libokmeto segir að Alvarenga hafi litið veiklulega út og kallað eitthvað á óþekktu tungumáli. Hann hafi baðað út öllum öngum og verið með hníf í hendinni. „Við vorum ekki hrædd heldur hissa,“ sagði hún í samtali við AFP.

Hún segist hafa talað við hann á sinni lélegu ensku og beðið hann um að leggja hnífinn frá sér. Síðhærður og skeggjaður og einungis klæddur í tætlur af nærbrók lagði Alvarenga hnífinn strax frá sér. 

Telur parið engan vafa leika á því að honum hafi skolað á land. Þau fóru með hann heim til sín og þvoðu honum og klæddu. Alvarenga talaði einungis spænsku en ekki þau. Sveitarstjórinn náði hins vegar að tala aðeins við hann á þeirri litlu spænsku sem hann kunni eftir að hafa horft á þættina með Dóru landkönnuði með börnum sínum.

Eins og fram hefur komið er Alvarenga kominn heim til El Salvador þar sem hann hitti fjölskyldu sína á ný. Læknar segja líkamlegt ástand hans gott en ekki andlegt.

Alvarenga segir að fjölmörg skip og bátar hafi siglt fram hjá honum er hann var á reki, í eitt skiptið hafi áhöfnin veifað til hans og haldið síðan áfram. Annað skip hafi siglt svo nálægt honum að hann hafi næstum verið sigldur niður.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert