Sárvantar stuðning til að koma á friði

Franskur hermaður í Mið-Afríkulýðveldinu.
Franskur hermaður í Mið-Afríkulýðveldinu. AFP

Það er ekki mögulegt að koma stöðugleika á í Mið-Afríkulýðveldinu án mikils stuðnings alþjóðasamfélagsins. Þetta segir forseti landsins.

„Ég erfði land sem var að hruni komið, þar sem óöryggi er útbreitt og stjórnsýslan í molum. Hér eiga sér stað fordæmalausar hörmungar af manna völdum,“ sagði forsetinn, Catherine Samba-Panza, á ráðstefnu kvenna í landinu í dag.

„Ég er sannfærð um að við komumst í gegnum þetta en án mikil stuðnings og aðstoðar frá alþjóðasamfélaginu getum við ekki náð settu marki um að koma hér á stöðugleika og lögum og reglu,“ sagði hún.

Samba-Panza tók við embætti forseta í janúar eftir að þáverandi forseta, sem hafði hrifsað til sín völd, var steypt af stóli.

Forsetakosningar eiga að fara fram í landinu um mitt næsta ár.

Þúsundir hafa fallið í átökunum sem geisað hafa í landinu og um 4,6 milljónir manna eru á flótta. Um 6.000 hermenn frá öðrum Afríkuríkjum sem og um 2.000 frá Frakklandi reyna að sinna friðargæslu en árangurinn er enn sem komið er mjög takmarkaður.

Samba-Panza hefur ítrekað farið fram á að Sameinuðu þjóðirnar sendi um 10.000 manna friðargæslulið til landsins til viðbótar við þann herafla sem þar er nú fyrir.

Matvælaskortur vofir yfir.

Samba-Panza sagði á ráðstefnunni í dag að hún vildi að rödd kvenna heyrðist meira í stjórnun landsins.

„Aðeins kona getur komið á friði,“ sagði hún og uppskar mikið lófaklapp.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert