Flugöryggismál í Malasíu í molum

Alþjóðalögreglan Interpol greindi í dag frá því að engin vegabréf farþega sem ferðuðust með flugi til eða frá Malasíu á árinu 2014 hefðu verið samkeyrð við gagnagrunn sem hefur að geyma upplýsingar um stolin og týnd ferðagögn. Einnig að öryggis vegna yrði að athuga slík gögn gaumgæfilega.

„Ákvörðun malasískra stjórnvalda um að samkeyra ekki ferðagögn flugfarþega við SLTD-gagnagrunn Interpol áður en þeim er hleypt inn í landið eða leyft að ganga um borð í flugvélar á leið úr landi verður ekki varin með því að ranglega skella skuldinni á tæknibúnað eða Interpol. Ef ábyrgð á þessari vanrækslu liggur einhver staðar þá er það eingöngu hjá yfirmönnum landamæraeftirlits Malasíu,“ segir í tilkynningu á vefsvæði Interpol.

Af tilkynningu má greina að malasísk yfirvöld hafi beitt því fyrir sér í málinu að umrædd samkeyrsla hægi um of á afgreiðslu flugfarþega. „Það að kanna hvort vegabréf sé á lista Interpol tekur aðeins sekúndur og nýjustu prófanir hafa leitt í ljós að það tekur 0,2 sekúndur að fletta upp í gagnagrunninum,“ segir Interpol. „Staðreyndin er sú að í Bandaríkjunum er flett oftar en 230 milljón sinnum upp í gagnagrunninum á ári hverju, oftar en 140 milljón sinnum í Bretlandi, oftar en 100 milljón sinnum í Sameinuðu arabísku furstadæmunum og oftar en 29 milljón sinnum í Singapúr. Ekkert þessara ríkja, eða nokkurt annað ríki með aðgang að gagnagrunninum, hefur haldið því fram að það taki of langan tíma.“

Ættu frekar að læra af reynslunni

Þá segir Interpol að vegna þessa hafi tveir karlmenn með stolin vegabréf komist um borð í malasísku farþegaþotuna, flug MH 370, sem hvarf af ratsjá föstudagskvöldið 7. mars 2014. Vélin var þá á leið frá Kuala Lumpur, höfuðborg Malasíu, til Peking í Kína. Samstundis hefði verið ljóst að þau voru stolin ef flett hefði verið upp í gagnagrunninum.

„Þrátt fyrir þessa ósanngjörnu árás á Interpol er stofnunin sem fyrr reiðubúin til að aðstoða malasísk flugmálayfirvöld við að tryggja öryggi malasískra þegna og gesta landsins og vernda fyrir þeim sem hyggjast nota stolin eða fölsuð ferðagögn á ferðalögum sínum,“ segir í tilkynningu Interpol og einnig að löggæslustofnunin skilji ekki hvers vegna innanríkisráðherra landsins velji að ráðast gegn Interpol í stað þess að læra af þessum hörmulega atburði.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert