„Mér er sama um peningana“

Ættingjar farþeganna horfnu með flugi MH370 árið 2014 krefjast þess …
Ættingjar farþeganna horfnu með flugi MH370 árið 2014 krefjast þess að rannsókn málsins verði opnuð á ný og grafist fyrir um hver örlög 227 farþega urðu. AFP/Pedro Pardo

Ættingjar fjölda kínverskra farþega sem fórust með flugi Malaysia Airlines, MH-370, á leið frá Kuala Lumpur til Peking fyrir tæpum áratug, 8. mars 2014, krefjast nú nýrrar rannsóknar á atvikinu en réttarhöld í skaðabótamáli rúmlega 40 fjölskyldna hefjast um þessar mundir í kínversku höfuðborginni.

Stefna fjölskyldurnar flugfélaginu, Boeing-verksmiðjunum, Rolls Royce, framleiðanda hreyfla vélarinnar, og tryggingafélaginu Allianz til bótagreiðslna að sögn kínverska ríkisfréttamiðilsins CCTV.

Krefjast stefnendur þess, auk bótanna, að fá að vita sannleikann um hvarf vélarinnar en af henni fannst varla nokkuð þrátt fyrir gríðarlega umfangsmikla leit á 120.000 ferkílómetra svæði á Indlandshafi, raunar þá umfangsmestu í allri sögu flugsins en það voru Ástralar sem skipulögðu og stjórnuðu leitinni. Aðeins örlítið brak úr vélinni fannst við leitina sem lauk ekki fyrr en í janúar 2017.

Missti son, tengdadóttur og barnabarn

Sendu stefnendur Anwar Ibrahim, forsætisráðherra Malasíu, opið bréf í dag og kváðust ekki skirrast við að halda leitinni áfram sjálfir fyrir eigin reikning en beiddust samstarfsvilja malasískra stjórnvalda á móti.

Jiang Hui ræðir við fjölmiðla en hann missti móður sína …
Jiang Hui ræðir við fjölmiðla en hann missti móður sína með flugvélinni sem aldrei fannst þrátt fyrir umfangsmestu leit í sögu flugsins sem ekki lauk fyrr en tæpum þremur árum eftir hvarf vélarinnar. AFP/Pedro Pardo

Eftir því sem AFP-fréttastofan greinir frá mátti sjá tár á hvörmum fjölda ástvina hinna horfnu utan við dómshúsið í Peking í dag. „Mér er sama um peningana,“ sagði Bao Lanfang, 71 árs gömul kona sem missti son sinn, tengdadóttur og barnabarn í flugi MH370, „ég vil að Malaysia Airlines segi mér sannleikann. Hvað kom fyrir ástvini okkar?“ spurði hún.

Samgönguráðuneyti Malasíu og flugfélagið neita hvor tveggju að tjá sig um málið við fjölmiðla en kínverska utanríkisráðuneytið sagði í yfirlýsingu í dag að Kínverjar legðu mikla áherslu á rannsóknarvinnuna í kjölfar hvarfs vélarinnar og vonaðist til þess að allir aðilar málsins héldu áfram góðum samskiptum sín á milli.

Sá böggull fylgir þó skammrifi að alls óvíst er um lögsögu kínverskra dómstóla til að dæma stefndu í málinu til greiðslu skaðabóta.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert