Leit að MH370 hætt í næstu viku

Flugvél frá Malasyan Airlines á flugvellinum í Kuala Lumpur árið …
Flugvél frá Malasyan Airlines á flugvellinum í Kuala Lumpur árið 2012. AFP

Leitinni að flugvél Malaysia Airlines, MH370, sem hvarf í mars árið 2014 verður hætt í næstu viku.

Þetta sagði Anthony Loke, samgönguráðherra Malasíu.

Alls voru 239 manns um borð í vélinni, flestir frá Kína. Hún var á leiðinni frá Kuala Lumpur til Peking þegar hún hvarf af ratsjám.

Áströlsk yfirvöld stjórnuðu leit að vélinni á 120 þúsund ferkílómetra svæði, sem er nokkuð stærra en Ísland, en án árangurs. Leitinni lauk í janúar í fyrra. 

Eftir þrýsting frá fjölskyldum þeirra sem voru í flugvélinni gerði malasíska ríkisstjórnin samning við bandaríska fyrirtækið Ocean Infinity um að hefja leitina að nýju. Skilyrðin voru þau að fyrirtækið fengi aðeins borgað ef vélin eða flugriti hennar fyndust.

Leitinni átti að ljúka í apríl en hún var framlengd. „Leitin mun standa yfir þangað til 29. maí,“ sagði Loke.

Leit Ocean Infinity hófst seint í janúar á um 25 ferkílómetra svæði í Indlandshafi, norður af fyrra leitarsvæðinu.

Skipið sem hefur verið notað til leitarinnar, Seabed Constructor, er norskt rannsóknarskip með 65 manna áhöfn, þar á meðal tvo meðlimi malasíska sjóhersins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert