Ísrael hótar einhliða aðgerðum

Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísraels.
Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísraels. AFP

Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísraels, hefur hótað því að beita stjórnvöld í Palestínu einhliða aðgerðum ef þau hætta ekki við áform sín um að sækja um aðild að ýmsum alþjóðasáttmálum.

Hann segir að slík áform muni aðeins gera ríkjunum erfiðara um vik að komast að samkomulagi, að því er segir í frétt AFP um málið.

„Öllum einhliða aðgerðum sem þeir munu beita verður svarað með einhliða aðgerðum af okkar hálfu,“ sagði forsætisráðherrann í morgun.

Samninganefndir ríkjanna beggja munu funda saman í dag með sendifulltrúa Bandaríkjanna, Martin Indyk, en talið er að þetta sé seinasta tilraunin til að koma í veg fyrir að friðarviðræðurnar fari út um þúfur.

Erfiðlega hefur tekist að ná sáttum í deilunni. Mahmoud Abbas, forseti Palestínumanna, hafnar því að draga umsóknir að alþjóðasáttmálum til baka og þá hefur Netanyahu hafnað öllum kröfum John Kerrys, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, um að láta af hefndaraðgerðum Ísraelsmanna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert