„Ekkert á leið inn í sólarlagið“

Barbara Walters og Barack Obama
Barbara Walters og Barack Obama AFP

Barbara Walters hefur ákveðið að hverfa af skjánum 16. maí nk. eftir áratuga langt starf í sjónvarpi. Hún hefur tekið mörg af þekktustu viðtölum bandarískrar sjónvarpssögu, meðal annars við Monicu Lewinsky árið 1999.

Barbara Walters ræddi um ákvörðun sína að hætta í sjónvarpi í viðtali við Varity í vikunni og heitir áhorfendum því að hún muni ekki fella tár í lokaþættinum af The View á ABC sjónvarpsstöðinni hinn 16. maí næstkomandi en meðal þess sem hún er þekkt fyrir er að viðmælendur hennar bresta oft í grát þegar hún ræðir við þá.

Ætlar ekki að gráta

„Ég ætla ekki að gráta,“ segir Walters í viðtali við Variety. Þar vísar hún til lokaþáttar Jay Lenos, The Tonight Show í febrúar þar sem hann réð ekki við tilfinningarnar. „Ég held að Jay hafi upplifað það þannig að það væri verið að losa sig við hann,“ segir Walters. „Mér líður ekki þannig. Þetta var mín ákvörðun.“

Hún er sátt við að vera að hætta en hún er 84 ára að aldri. „Ég ætti að vera miður mín en er það ekki,“ segir Walters. „Svo kannski er eitthvað að mér. Hvað er að konu sem er ekki miður sín yfir því að yfirgefa sjónvarpsskjáinn?“ spyr hún.

Barbara Jill Walters fæddist hinn 25. september 1929 í Boston, Massachusetts.  Foreldrar hennar hétu Dena Seletsky Walters og Lou Walters  Hún átti tvö systkini, Jacqueline sem var mjög fötluð og lést árið 1985 og bróður, Burton, sem lést úr lungnabólgu  árið 1932.

Faðir hennar setti á laggirnar næturklúbbakeðju árið 1937 og rak næturklúbba víða. Vegna starfa föður hennar var Barbara vön því að umgangast fræga fólkið og er talað um að það hafi haft áhrif á hversu afslöppuð hún var í viðtölum við frægt fólk.

Hún lauk BA-prófi í ensku frá Sarah Lawrence College í New York árið 1953. Walters byrjaði ferilinn á lítilli auglýsingastofu en fór síðan yfir í starf almannatengils hjá fyrirtæki tengdu NBC sjónvarpsstöðinni. 

Árið 1955 gekk Walters í hjónaband með kaupsýslumanninum Robert Henry Katz en þau skildu árið1958. NBC sjónvarpsstöðin réð Barböru Walters sem handritshöfund  við þáttinn Today árið 1961 og átti hún að skrifa efni sem höfðaði til kvenna. Það tók hana ekki marga mánuði að sannfæra yfirmenn sína um að senda sig í ferðalag til Indlands og Pakistans með forsetafrú Bandaríkjanna, Jacqueline Kennedy. Efnið sem hún sendi frá sér úr ferðinni skilaði henni langt í starfi og mikilli ábyrgð.

Walters gekki í hjónaband á ný árið 1963 er hún og leikhúsframleiðandinn Lee Guber létu pússa sig saman. Þau ættleiddu dóttur, Jacqueline Dena, en hjónabandið entist ekki og var gengið frá skilnaðinum árið 1976.

Markaði spor í fjölmiðlasögunni

Ferill Walters spannar yfir hálfa öld en í  ellefu ár var einn af stjórnendum Today þáttarins á NBC sjónvarpsstöðinni og hlaut meðal annars sín fyrstu Emmy verðlaun fyrir starf sitt þar. Árið 1976 var hún keypt yfir á ABC sjónvarpsstöðina fyrir eina milljón Bandaríkjadala, 112 milljónir króna, í árslaun, fjárhæð sem var óþekkt meðal kvenna í fjölmiðlastétt á þessum tíma. Ekki nóg með það heldur varð hún fyrst kvenna til þess að vera fréttalesari í kvöldfréttum í bandarísku sjónvarpi.

Í kjölfarið fylgdu þekkt viðtöl og sjónvarpsumræður. Má þar nefna kappræður forsetaframbóðaenda, þeirra Jimmy Carter og Gerald Ford árið 1976. Viðtöl við forsetahjónin Jimmy og Rosalynn Carter og fyrsta sameiginlega viðtalið við Menachem Begin, þáverandi forsætisráðherra Ísraels og forseta Egyptalands, Anwar Sadat.

Árið 1979 varð hún annar stjórnenda fréttaþáttarins 20/20 hjá ABC. Þar tók hún fyrsta viðtalið (1980) við Richard Nixon sem hann veitti frá því hann sagði af sér sem forseti Bandaríkjanna árið 1974.

En ekki voru allir sáttir við frama Walters í fjölmiðlum, einkum karlkynsstarfsfélagar. Meðal þeirra var Harry Reasoner sem var fréttaþulur ásamt henni hjá ABC.

Varð sú hæstlaunaðasta

Í september 2000 gerði Walters tímamótasamning við ACB þar sem hún gerði samning til fimm ára og launin voru ekkert slor, 12 milljónir Bandaríkjadala, og hún því hæst launasti fréttamaðurinn í sögunni.

Í september 2004 hætti hún sem einn af stjórnendum fréttaþáttarins 20/20 en frá árinu 1997 hefur hún verið með sinn eigin þátt The View.

Í pistli sem Cynthia Littleton ritar í Variety kemur fram að enginn, ekki einu sinni Walters né Bill Geddie, sem stýrir þáttagerðinni með Walter, höfðu nokkra trú á The View í upphafi. Enda þátturinn á dagskrá klukkan 11 að morgni á virkum dögum. Tími sem hafði verið nefndur svarta holan hjá ABC í meira en áratug. En nú sautján árum og tæplega 3.800 þáttum síðar þá er The View eitt vinsælasta morgunefnið í bandarísku sjónvarpi.

Ekki tilgerðarlegt spjall heldur alvöru viðtöl

Þar skiptir máli að mati Littleton að þátturinn var aldrei tilgerðarlegur spjallþáttur þar sem erfiðu málin voru undanskilin heldur miklu fremur bland í poka þar sem farið er yfir mál sem fólk hefur áhuga á. Ekki bara yfirborðsmennska og að sögn Bills Geddies, sem stýrir framleiðslu The View, spannar umræðuefnið allt frá hvarfi malasísku þotunnar til þess hvað Kardashians fjölskyldan er að bralla.

Sjá fyrir sér góðan vestra

Samstarf Walters og Geddie spannar 25 ár eða allt frá því hann tók við sem framleiðslustjóri þáttarins árið 1989. Hann segir að þau myndu aldrei nenna að vera með hefðbundin spjallþátt. „Okkur finnst að konur sem eru heima eigi rétt á betri þáttagerð en það.“

Vinir Walters sjá ekki alveg fyrir sér að hún eigi eftir að setjast í helgan stein. „Ég held að við getum bankað á dyrnar hjá henni og sagt: við þörfnumst þín og það yrði eins og í góðum vestra þegar við förum á bak og ríðum inn í atið á ný,“ segir Diane Sawyer sem hefur unnið lengi með Walters á ABC í viðtali við Variety.

Walters og sjónvarp er svona svipað og egg og beikon

Fjölmargir hafa tjáð sig undanfarna daga um Walters og viðtölin sem hún er svo fræg fyrir. Þáttastjórnandinn fyrrverandi, Larry King, orðar þetta vel. „Ég hélt að hún og sjónvarp væru eins og egg og beikon.“

Þegar Walters tilkynnti um brotthvarf sitt af sjónvarpsskjánum sagði hún að um endanlega ákvörðun væri að ræða en núna hefur hún heldur dregið í land. „Ef forsetinn kæmi, það væri eftir aðstæðum, þá myndi ég kannski snúa aftur. Ef Fídel Castro myndi segja að hann væri til í viðtal við mig, sem hann hefur ekki gert í 25 ár, myndi ég hætta við og taka viðtalið.“ Hún bætir við „Ég er ekkert á leið inn í sólarlagið.“

En þrátt fyrir farsælan feril í fjölmiðlum stefndi Barbara ekki í blaðamennsku. En einhvern vegin lá leiðin þangað. Hún hefur talað um uppvaxtar árin þar sem faðir hennar var ríkur einn dag en sárafátækur þann næsta. Hún hefur sagt ungum blaðamönnum það að þegar þeir taki viðtöl verði þeir að forvitnast um barnæsku þeirra. Slíkar spurningar opni oft dyrnar að persónuleika þeirra. En hennar eigin barnæska mótaðist mjög af eldri systur hennar. Hún hafi ekki mátt bjóða vinum heim vegna fötlunar Jackie og æskuárin ahfi verið einmannaleg.

Á háskólaárunum velti hún fyrir sér að gerast leikkona en óttaðist viðbrögð áhorfenda og mikið. Þegar hún fékk vinnu sem handritshöfundar Today voru handritshöfundarnir sex karlar og ein kona. „Og þú fékkst ekki starfið sem kvenhöfundur nema viðkomandi myndi annað hvort giftast eða deyja.“

Hún fékk fyrst þrettán vikna samning fyrir framan upptökuvélarnar og hún sat þar í þrettán ár. „Það er erfitt að losna við mig,“ segir Walters í nýlegu viðtali. Hún segir að það sem skiptir mestu sé að vera með góða sögu og að kunna að ritstýra. 

Þrátt fyrir langan og farsælan feril hjá ABC sjónvarpsstöðinni sér hún alltaf eftir því að fara þangað. Enda samband hennar og Reasoner skelfilegt og fór ekki fram hjá neinum sem fylgdist með.

Að sögn Walters bjargaði það ferli hennar að fá fólk eins og  Barbra Streisand, Jimmy Carter, Bob Hope, Bing Crosby, John Wayne og Christopher Reeve í viðtal.

Undirbúningur skiptir miklu og Walters gerir ekki lítið úr því. Raunin er nefnilega sú að sá sem ætlar að ná árangri í fjölmiðlum veit að það er ekki nóg að mæta í viðtalið og halda að hann geti spunnið af fingrum fram, segir hún.

Walters gengur mikið og hún les daglega þrjú dagblöð, á pappír,New York Times, New York Post og Wall Street Journal. Hún sér sjálf um að bóka fólk í viðtöl og er víst ein fárra bandarískra sjónvarpsmanna sem gerir það í dag.

Þrátt fyrir að síðasti þátturinn verði sendur út þann 16. maí ætlar Walters að halda skrifstofu sinni hjá ABC News þar sem 11 Emmy verðlaun prýða veggina. Á skrifstofunni er einnig að finna myndir af dóttur hennar, Jackie sem er 45 ára og hundinum, Cha Cha sem Walter dáir og dýrkar.

Walters á þrjú hjónabönd að baki, þriðji eiginmaðurinn var forstjóri Lorimar Television,  Merv Adelson en þau skildu árið 1992.

Getur horft aftur og aftur á Beðmál í borginni

Hún hefur átt í ástarsambandi við nokkra þjóðþekkta menn, svo sem Alan Greenspan, sem síðar varð Seðlabankastjóri Bandaríkjanna og þingmanninn John Warner. Eins greinir hún frá því í sjálfævisögu sinni Audition að hún hefði átt í ástarsambandi við þingmanninn Edward Brooke á áttunda áratugnum en hann var kvæntur á þeim tíma. Hún segir að þau hafi bundið endi á sambandið til þess að koma í veg fyrir hneyksli.

Hún segist vera rómantísk og getur horft aftur og aftur á þættina Beðmál í borginni. Walters segir að það verði gott að geta sofið út þegar hún fer á eftirlaun og hún fari jafnvel í nám. En þessa dagana er ofarlega í huga hennar hver verði hennar síðasti viðmælandi í The View. Kannski verður það fyrrverandi starfsmaður Hvíta hússins Monica Lewinsky. Alls horfðu 74 milljónir á viðtalið í sérstakri útgáfu 20/20 í febrúar 1999.

„Þetta er stæsta viðtal sem ég hef nokkurn tíma tekið,“ segir Walters í viðtali við Variety. „Ég held að saga Monicu sé mjög áhugaverð þar sem öllum öðrum hefur tekist að halda áfram en henni ekki.“

Mér leið eins og dræsu

Viðtalið vakti gríðarlega athygli enda vildu allir heyra hvað stúlkan sem Bandaríkjaforseti, Bill Clinton, hélt við, hefði að segja.

„Mér leið eins og dræsu. Mér fannst ég óhrein og mér fannst sem ég hefði verið notuð og ég var afar vonsvikin," sagði í viðtalinu við Walters. Játaði Lewinsky að henni hefði fundist Clinton gefa í skyn í sjónvarpsávarpi sínu 17. ágúst 1998  að hún hefði veitt honum „kynferðislega þjónustu“.

Arianna Huffington og Barbara Walters
Arianna Huffington og Barbara Walters AFP
AFP
Barbara Walters árið 2008
Barbara Walters árið 2008 AFP
Barbara Walters árið 2012
Barbara Walters árið 2012 AFP
Barbara Walters
Barbara Walters AFP
=
= AFP
Sarah Palin ásamt dætrum sínum, Piper og Willow, í þætti …
Sarah Palin ásamt dætrum sínum, Piper og Willow, í þætti Barbara Walters HO
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert