Fangaflug til eyjar á Indlandshafi

William Hague utanríkisráðherra Bretlands.
William Hague utanríkisráðherra Bretlands. AFP

Aukinn þrýstingur er á bresk stjórnvöld að svara því hvort Bretar tóku þátt í að vista fanga sem voru pyntaðir á vegum stjórnvalda í Bandaríkjunum. Fyrrverandi yfirmaður leynisþjónustu Líbíu sagði við mann sem sætti pyntingum að hann ætti að fara til Diego Garcia, sem eru eyja á Indlandshafi, en hún er undir stjórn Breta.

Í mars 2004 var Abdulhakim Belhadj og ófrísk eiginkona hans flutt baka til Líbíu. Að flutningunum stóðu leyniþjónustur Bandaríkjanna og Bretlands. Belhadj var andsnúinn stjórn Gaddafi í Líbíu.

Belhadj segir að í fyrstu yfirheyrslunni í fangelsi skammt frá Trípóli hafi Moussa Kousa, yfirmaður leyniþjónustu Líbíu, sagt að hann hefði verið fluttur frá Bangkok í Tælandi með viðkomu í Diego Garcia.

Eftir að stjórn Gaddafi féll árið 2011 fundust gögn sem merkt voru CIA sem sýndu að flytja átti Abdulhakim Belhadj og konu hans, Fatima Boudchar, frá til Tripoli í gegnum Diego Garcia.

Stjórnvöld í Bretlandi hafa alltaf neitað því að Diego Garcia hafi verið viðkomustaður í fangaflugi CIA. David Miliband, fyrrverandi utanríkisráðherra Bretlands, viðurkenndi hins vegar í ræðu sem hann hélt í breska þinginu árið 2008 að flugvél með tvo fanga hefði lent í á eyjunni árið 2002 í þeim tilgangi að taka bensín.

Lögfræðingar sem starfa fyrir mannréttindasamtökin Reprieve hafa beðið William Hague að útskýra hvernig Diego Garcia-eyjan var notuð í tengslum við fangaflugið.

Fréttastöðin Al Jazeera sagði fyrir nokkrum dögum að leyniþjónustunefnd bandaríska þingsins hefði fengið upplýsingar um að mikilvægir fangar hefðu verið vistaðir á Diego Garcia og að starfsemin sem þar fór fram hefði verið í góðu samstarfi við stjórnvöld í Bretlandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert