Rússar dragi úr spennunni

Anders Fogh Rasmussen, framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins, hvetur rússnesk stjórnvöld til að draga úr spennunni í austurhluta Úkraínu. Hann vill jafnframt að Rússar dragi herlið sitt til baka og hætti að ýta undir aðskilnaðarsinna í Úkraínu.

Hann fundaði í dag með utanríkisráðherrum Evrópusambandsríkjanna. Að fundi loknum ræddi hann við blaðamenn um stöðuna í Úkraínu, eftir því sem fram kemur í frétt AFP um málið.

Rasmussen benti á að hernaðaraðgerðir af hálfu Atlantshafsbandalagsins kæmu ekki enn til greina en hann sagðist myndu styðja efnahagslegar refsiaðgerðir af hálfu stjórnvalda í Bandaríkjunum og Evrópu gegn Rússum, létu þeir ekki af aðgerðum sínum.

„Rússar ættu að stefna að því að hætta að vera hluti vandans og verða þess í stað hluti lausnarinnar,“ sagði hann.

Vopnaðir aðskilnaðarsinnar hafa í vikunni hertekið ráðhús og lögreglustöðvar í nokkrum borgum í austurhluta Úkraínu. Úkraínsk stjórnvöld hófu hins vegar hernaðaraðgerðir í morgun og heyrðist í kjölfarið mikil skothríð á flugvelli nálægt borgunum Kramatorsk og Slavíansk í austurhlutanum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert