„Þú drapst Reevu“

Oscar Pistorius mætir í dómssalinn í dag.
Oscar Pistorius mætir í dómssalinn í dag. AFP

Suðurafríski spretthlauparinn Oscar Pistorius harðneitaði því í dómssal í dag að hafa viljandi banað unnustu sinni, Reevu Steenkamp, á meðan „öskur hennar smugu“ um allt húsið, eins og saksóknarinn Gerrie Nel orðaði það af sinni alkunnu hörku. Enn einn daginn situr Pistorius í vitnastúkunni í réttarsalnum í Pretoriu og svarar ítarlegum spurningum saksóknarans sem stundum er kallaður „úlfurinn“. Það er ekki að undra, Nel sýnir Pistorius enga vægð, slær fram fullyrðingum um hegðun hans hið örlagaríka kvöld fyrir rúmu ári er hann skaut Steenkamp til bana. Pistorius segist hafa talið hana innbrotsþjóf og því skotið. Nel blæs á það og segir hann hafa skotið hana viljandi.

Enn og aftur tókst Nel að græta spretthlauparann í vitnastúkunni en þetta er fimmti dagurinn í röð sem hann spyr hann spjörunum úr.

Pistorius tók sér vopn í hönd „í þeim eina tilgangi að skjóta og drepa“ unnustu sína, sagði Nel m.a. í réttarsalnum í morgun.

„Hverjum eigum við að kenna um þá staðreynd að þú skaust hana?“ spurði saksóknarinn Pistorius m.a. í morgun. 

„Ég veit það ekki,“ svaraði Pistorius. „Ég var hræddur. Mér fannst lífi mínu ógnað.“

Nel hélt áfram: „Einn einu sinni, við eigum ekki að kenna þér um? Hverjum eigum við að kenna um?“

Pistorius sagðist þá ekki viss.

Og saksóknarinn hélt áfram: „Eigum við að kenna Reevum um? Hún sagði þér aldrei að hún væri á leiðinni á klósettið - ættum við að kenna Reevu um?“

Pistorius neitaði því. „Eigum við að kenna ríkisstjórninni um?“ spurði saksóknarinn þá. „Þú verður að kenna einhverjum um.“

Nel gekk síðan áfram á Pistorius og spurði: „Hverjum eigum við að kenna um skotin sem rifu sig í gegnum líkama hennar?“

Saksóknarinn snéri sér svo að öskrum Steenkamp sem nágrannar heyrðu og nokkrir hafa vitnað um í málinu. „Það voru aðeins tvær manneskjur inni í húsinu. Þú drapst Reevu. Ég segi þér það að þín útgáfa á málinu er ekki aðeins ótrúverðug en einnig svo ólíkleg að hún getur ekki verið sönn. Hún var læst inni á baðherbergi og þú vopnaðist í þeim eina tilgangi að skjóta hana og drepa.“

Pistorius neitaði því en saksóknarinn sagði: „Eftir á varstu miður þín yfir því sem þú hafðir gert, aðeins af því að það var ætlun þín að drepa hana.“

Nel sagðist undrast að Pistorius hafi ekki öskrað er hann sá lík unnustunnar á baðherberginu. Þá sagði hann að Pistorius hefði aðeins hringt í öryggisvörðinn óvart, hann hafi ekki viljað fá neinn á svæðið. Pistorius sagðist hafa verið miður sín er hann sá Steenkamp. Því hafi hann ekki öskrað.

Eftir þessa harkalegu yfirheyrslu bað verjandi Pistorius hann að lesa skilaboð upphátt í réttarsalnum sem hann hafði sent unnustu sinni rétt áður en hún lést á valentínusardag í fyrra. 

„Rósir eru rauðar. Fjólur eru bláar. Ég tel að í dag sé góður dagur til að segja þér... að ég elska þig.“

Frétt Sky um málið

Frétt BBC um málið

Gerrie Nel yfirheyrir Pistorius með tilþrifum.
Gerrie Nel yfirheyrir Pistorius með tilþrifum. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert