Neitar að gefa sýni í La Rochelle

Ungur menntskælingur hefur neitað að tekið verði úr honum lífssýni vegna rannsóknar á nauðgunarmál í La Rochelle á vesturströnd Frakklands. Ber hann við „persónulegum ástæðum“ að sögn franskra fjölmiðla.

Ákveðið var að allir nemendur í menntaskóla í La Rochelle skyldu gefa lífssýni vegna rannsóknarinnar. Um er að ræða 527 einstaklinga, þ.e. 475 nemendur, 31 kennara og 21 annan starfsmann skólans.

Í gærkvöldi höfðu munnvatnssýni verið tekin úr 489 manns en vegna veikinda og annarra ástæðna mun sýnatakan líklega ekki klárast alveg fyrr en á morgun, skírdag. Aðgerð af þessu tagi á sér engin fordæmi í frönsku menntakerfi. Vonast er til að niðurstöður rannsóknarinnar leiði lögreglu á spor gerandans í máli sem snýst um nauðgun 16 ára stúlku í Fénelon-Notre-Dame skólanum í fyrrahaust.

Nauðgunin átti sér stað eftir myrkur á dimmu skólasalerni 30. september sl. Hefur stúlkan ekki getað borið kennsl á nauðgarann. Eina sem lögreglan hefur úr að moða eftir rannsókn á nauðguninni er lífssýni  sem talið er vera frá gerandanum komið.

Ungi maðurinn sem neitaði lögreglu um sýni er frjáls ferða sinna að sögn Isabelle Pagenelle saksóknara í La Rochelle. Hún segir að hann hafi ekki verið kærður til lögreglu vegna þessa, eins og gefið hafði verið út fyrir sýnatökuna að þeir sem undan skærust mættu búast við. Hún sagði að til að byrja með yrði sýnatökunni lokið og síðan beðið niðurstöðu greiningar á þeim áður en næstu skref í nauðgunarrannsókninni yrðu stigin. Kæmi allt eins til greina að freista þess að sannfæra unga nemendan um að gefa sýni.

Fréttir mbl.is:

„Við höfum ekkert nema lífssýnið“

Fá lífssýni tæplega 500 nemenda

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert