Pútín vill ekki þurfa að senda hersveitir

Frá Úkraínu.
Frá Úkraínu. AFP

Vladímír Pútín, forseti Rússlands, sagðist í dag vonast til þess að hann þyrfti ekki að nota rétt sinn til að senda rússneskar hersveitir til Úkraínu, en nokkur spenna ríkir í austurhluta landsins.

„Ég vona að ég verði ekki skyldugur til að nýta þennan rétt,“ sagði Pútín og rifjaði upp að efri deild þingsins hefði 1. mars sl. hvatt hann til að senda hersveitir til Úkraínu. 

Úkraínskir hermenn hafa hafið aðgerðir í Kramatorsk og Donetsk í viðleitni sinni til þess að ná aftur á sitt vald stjórnarbyggingum sem aðskilnaðarsinnar hafa lagt undir sig. Aðgerðir hófust í Kramatorsk í fyrradag þegar herinn lagði undir sig flugvöll bæjarins sem var á valdi aðskilnaðarsinna.

Aðskilnaðarsinnar náðu sex úkraínskum herbílum á sitt vald í borginni Kramatorsk í gær. Óljóst er hvernig það atvikaðist en samkvæmt frétt BBC er ekki lokum skotið fyrir að hermenn hliðhollir Rússum hafi yfirgefið bifreiðarnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert