Bræður létu lífið í hópslagsmálum

www.norden.org

Tveir bræður létu lífið í gærkvöldi í slagsmálum í borginni Norrköping í Svíþjóð og lögregla lýsir þeim sem fjölskyldudeilu. Fram kemur á fréttavefnum Thelocal.se að allt að 40 manns hafi tekið þátt í slagsmálunum. Fimm hafa verið handteknir vegna málsins.

Haft er eftir vitni að einhverjir þátttakendur í slagsmálunum hafi verið vopnaðir hnífum. Slagsmálin héldu áfram eftir að lögreglan kom á staðinn og reyndi að stilla til friðar. Bræðurnir voru skotnir til bana og margir aðrir slösuðust. Einn liggur enn á sjúkrahúsi með alvarleg skotsár. Haft er eftir lögreglumanninum Fredrik Kliman að lögreglumenn sem komu á staðinn hafi sagt að þeir hafi aldrei séð verri aðstæður.

Lögreglan telur hugsanlegt að fleiri hafi slasast illa í slagsmálunum en hafi flúið af vettvangi og ekki leitað sér læknisaðstoðar. Kliman segir enn óljóst hvað olli slagsmálunum en bæði hnífum og hnúajárnum hafi verið beitt. Málið er í rannsókn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert