Leit að malasísku flugvélinni frestað

GREG WOOD

Leitinni að malasísku farþegaþotunni, sem hefur verið saknað í yfir sex vikur, var frestað tímabundið í dag vegna hitabeltisstorms og ofsaveðurs. Áætlað var að allt að tíu herflugvélar myndu fljúga yfir Indlandshafið til að finna brak úr þotunni og komast með þeim hætti að örlögum hennar.

Þotan hvarf sporlaust þann 8. mars síðastliðinn en um 239 manns voru um borð.

Það er hitabeltisstormurinn Jack sem kemur í veg fyrir það að hægt sé að leita að þotunni í dag. Stormurinn hefur verið að koma sér fyrir norðvestur af leitarsvæðinu á seinustu dögum. Fátt bendir til þess að hann fari yfir sjálft leitarsvæðið en áhrifa hans er þó nú þegar farið að gæta. Spáð hefur verið hvassviðri og rigningu og hefur sú spá að mestu leyti ræst, að því er segir í frétt AFP um málið.

Þotan var á leið frá Kuala Lumpur, höfuðborg Malasíu, til Peking í Kína. Hvað gerðist fljótlega eftir að vélin flaug út úr malasískri lofthelgi er enn á huldu. Ljóst er hins vegar að henni var, af einhverjum ástæðum, flogið langt af leið. 

Forsætisráðherra Malasíu, Najib Razak, hefur sagt að nær engar líkur væru á því að nokkur hafi komist lífs af í slysinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert