Um milljón flúið til Tyrklands

Sýrlensk kona sem flúði stríðið í heimalandinu situr á götuhorni …
Sýrlensk kona sem flúði stríðið í heimalandinu situr á götuhorni í Istanbúl. AFP

Um milljón sýrlenskra flóttamanna er nú komin til Tyrklands. Forsætisráðherra Tyrklands, Tayyip Erdogan, segir að enn verði tekið við þeim sem þurfa að flýja óöldina í Sýrlandi.

„Eigum við að biðja bræður okkar að koma ekki, að deyja í Sýrlandi?“ spurði Erdogan á þinginu í dag.

Stríðið í Sýrlandi hefur nú staðið í þrjú ár. Milljónir hafa lagt á flótta og talið er að um 150 þúsund manns hafi látið lífið. Flestir flýja til næstu nágrannalanda, m.a. Tyrklands, Jórdaníu og Líbanons.

Sameinuðu þjóðirnar segja að nú sé yfir milljón sýrlenskra flóttamanna formlega skráð í Líbanon. Sífellt fleiri bætast í hópinn. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert