Kostnaðurinn ekki aðalatriðið

AFP

Áströlsk stjórnvöld segja að kostnaður vegna leitarinnar að malasísku farþegavélinni, sem hefur verið saknað í yfir sex vikur, sé ekki aðalatriðið. David Johnston, varnarmálaráðherra Ástralíu, telur þess í stað mikilvægast að finna vélina sem fyrst.

Ástralir hafa verið fremstir í flokki leitarmanna á Suður-Indlandshafi seinustu vikur. Kafbátur á þeirra vegum hefur farið um mest allt leitarsvæðið en í frétt AFP segir að hann hafi nú í nótt lokið leit á rúmlega 80% svæðisins. Leitin hefur enn engan árangur borið.

Vélin hvarf sporlaust þann 8. mars síðastliðinn en um 239 manns voru um borð.

„Við viljum finna þessa farþegavél. Við viljum segja vinum okkur í Malasíu og Kína að þetta snúist ekki um kostnaðinn,“ sagði Johnston við fjölmiðla í nótt.

Tony Abbott, forsætisráðherra Ástralíu, segir að leitarmennirnir trúi því enn að vélin hafi brotlent í Indlandshafinu. „Við höfum ekki lokið leitinni, við höfum ekki enn fundið neitt á svæðinu sem við erum að leita að, en það sem ég vil taka fram er að Ástralía mun ekki draga sig í hlé fyrr en við höfum gert allt sem í okkar valdi stendur til að komast til botns í þessari ráðgátu,“ sagði hann.

Þotan var á leið frá Kuala Lumpur, höfuðborg Malasíu, til Peking í Kína. Hvað gerðist fljótlega eftir að vélin flaug út úr malasískri lofthelgi er enn á huldu. Ljóst er hins vegar að henni var, af einhverjum ástæðum, flogið langt af leið. 

Forsætisráðherra Malasíu, Najib Razak, hefur sagt að nær engar líkur væru á því að nokkur hafi komist lífs af í slysinu.

Gert er ráð fyrir að dregið verði úr fjölda bæði flugvéla og skipa á leitarasvæðinu í þessari viku. Sem stendur eru tíu flugvélar og tólf skip í nágrenni við svæðið.

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert