Orrustuþotu stefnt gegn þotu United Airlines

Þetta er sú sjón sem blasti skyndilega við flugstjóra United-þotunnar; …
Þetta er sú sjón sem blasti skyndilega við flugstjóra United-þotunnar; frönsk Rafale orrustuþota á vinstri væng. mbl.is/afp

Frönsk orrustuþota var send á loft í veg fyrir Boeingþotu bandaríska flugfélagsins United Airlines þar sem hana rak af leið talstöðvarlausa yfir vesturhluta Frakklands.

Bandaríska þotan var á leið frá Rómarborg á Ítalíu til Washington í Bandaríkjunum um mijan dag í gær. Er flugumferðarstjórar í Frakklandi urðu þess áskynja að þotuna hafði rekið af fyrirfram ákveðinni flugleið og hafði ekki svarað í talstöðina voru Rafale orrustuþotur frá flugherstöðinni í Mont-de-Marsan sendar á eftir henni.

Eftir að hafa flogið á rúmlega hljóðhraða um skeið á eftirförinni áttu þoturnar stefnumót milli bæjanna La Roche-sur-Yon og Nantes á vesturströnd Frakklands. Þar vaggaði orrustuþota vængjum og gerði kúnstir samkvæmt flugmannahandbókum til að ná sambandi við flugmenn United-þotunnar og gera þeim skiljanlegt hvað á seyði var.

Um síðir tókst að koma talstöð bandarísku þotunnar í gagnið og lauk öryggisflugi frönsku orrustuflugvélarinnar þar með.

Fulltrúar flugmálayfirvalda vildu hvorki játa né neita að atvik þetta hafi átt sér stað, en upplýsingaþjónusta franska flughersins skýrði fjölmiðlum frá því.

Að sögn slökkviliðsmanna á slóðum flugvélanna barst fjöldi kvartana frá skelkuðum borgurum eftir að orrustuþotan rauf hljóðmúrinn á eftirförinni í 35.000 feta hæð um 100 km suður af Bordeaux.  
 
Talsmaður franska flughersins gefur til kynna að atvik þetta séu næstum því daglegt brauð fyrir orrustuflugmenn hans. Í fyrra séu skráð um 70 tilvik af þessu tagi í frönsku loftrými.
 

Dassault Rafale orrustuþota.
Dassault Rafale orrustuþota. mbl.is/afp
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert