Rússar banna blót með lögum

Vladimír Pútín forseti Rússlands á fundi í Kreml í Moskvu …
Vladimír Pútín forseti Rússlands á fundi í Kreml í Moskvu 5. maí 2014. AFP

Vladimír Pútín Rússlandsforseti skrifaði í dag undir frumvarp að lögum sem banna allt blót í kvikmyndum, sjónvarpsútsendingum, leikhúsum og fjölmiðlum almennt. Útgefnar bækur sem innihalda blót verða merktar sérstaklega með viðvörunum þess efnis.

Þeir sem blóta mega eiga von á að vera dæmdir til sektargreiðslu. Fyrir blótsyrði einstaklinga verður sektað um allt að 2.500 rúblur, sem eru tæpar 8 þúsund krónur, en fyrirtæki og stofnanir verða sektuð um allt að 50.000 rúblur sem nemur rúmum 150.000 krónum. Þetta kemur fram á vef BBC.

Lögin gera ráð fyrir því að stofnuð verði sérstök nefnd sérfræðinga, sem mun skera úr um hvort orð teljist til blóts eða ekki, komi upp ágreiningur um slíkt.

Með undirskrift sinni staðfesti Pútín lögin og munu þau taka gildi 1. júlí næst komandi. Listamönnum og öðrum Rússum sem koma opinberlega fram eða gefa út efni er því frjálst að blóta og ragna að vild fram að þeim tíma, eða næstu 2 mánuðina.

Lögin þykja enduróma fyrri tíð þegar kommúnistaflokkurinn í Sovétríkjunum krafði listamenn og rithöfunda um að forðast „úrkynjaða“ vestræna tísku og orðfæri, en halda sig við hefðbundin gildi.

Ekki er ljóst hvort lögin ná yfir netnotkun Rússa á samfélagsmiðlum eins og Facebook og Twitter, þar sem efni er birt opinberlega.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert