Grýtt til dauða af eigin fjölskyldu

Frá Lahore í Pakistan
Frá Lahore í Pakistan Mynd/AFP

Pakistönsk kona var grýtt til dauða af eigin fjölskyldu í borginni Lahore í dag. Um 20 ættingjar konunnar réðust á hana með steinum og kylfum fyrir utan dómsal í borginni. Ástæðan fyrir árásinni er að sögn lögmanns hennar að hún giftist manni sem fjölskyldan sætti sig ekki við. 

Faðir konunnar hafði í kjölfar brúðkaups þeirra höfðað mál gegn eiginmanni hennar fyrir mannrán. Var málið til meðferðar fyrir dómstólum þegar árásin átti sér stað. Þegar hjónin komu gangandi skutu fjölskyldumeðlimir hennar byssuskotum upp í loftið og reyndu að nema hana á brott. Þegar hún sýndi mótþróa réðust þau á hana með fyrrgreindum afleiðingum.

Faðirinn viðurkenndi heiðursmorð

Eiginmaður hennar segir í samtali við AP-fréttastofuna að þau hafi kynnst eftir að fyrri eiginkona hans lést. Átti hann fimm börn úr fyrra sambandi. „Ég held að fjölskyldan hafi verið að reyna að ná út úr mér peningum áður en þau ætluðu að þvinga hana til þess að giftast einhverjum öðrum,“ sagði maðurinn. 

Faðir konunnar gaf sig fram við lögreglu eftir morðið og viðurkenndi að hafa framið „heiðursmorð.“

Samkvæmt upplýsingum frá mannréttindasamtökum í Pakistan voru um 869 konur myrtar svokölluðum heiðursmorðum á síðasta ári. Heiðursmorð er það nefnt þegar fjölskyldumeðlimir myrða konu fyrir að vilja ekki giftast þeim sem fjölskyldan velur. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert