Sisi er nýr forseti Egyptalands

Abdel Fattah al-Sisi, fyrr­ver­andi yf­ir­maður egypska hers­ins, er nýr forseti Egyptalands en í dag var tilkynnt að hann hefði farið með afgerandi sigur af hólmi í forsetakosningunum sem fram fóru í síðustu viku með 96,9 prósent atkvæða.

Sisi hafði verið spáð sigri þar sem hann nýtur mikilla vinsælda eftir að hafa átt stór­an þátt í því að steypa Mohamed Morsi úr for­seta­stóln­um í júlí í fyrra. 

Mótframbjóðandi Sisi, Hamdeen Sabbahi hlaut aðeins um þrjú prósent atkvæða. Sabbahi kvartaði yfir kosningunum á meðan þeim stóð þar sem þær áttu upphaflega aðeins að standa yfir í tvo daga. Yfir­kjör­stjórn­in ákvað hins veg­ar að bæta ein­um degi við vegna slakr­ar kosn­ingaþátt­töku. Sabbahi gaf í skyn að Sisi sjálf­ur hefði haft hönd í bagga með að taka þessa ákvörðun en yfir­kjör­stjórn­in vísaði því hins veg­ar á bug.

Stuðningsmenn Morsis í Bræðralagi múslima sniðgengu kosningarnar en samtökin hafa verið yfirlýst sem hryðjuverkasamtök og hefur ríkisstjórnin bannað alla starfsemi félagsins.

Kjörsóknin í kosningunum var heldur dræm eða einungis 47,45 prósent.

Sisi hefur sagt að það muni taka um 25 ár að innleiða raunverulegt lýðræði í Egyptalandi. Þá hefur hann talað gegn auknum réttindum almennra borgara sem hann telur vera til þess fallin að skapa óeirðir.

Talið er að hann verði formlega settur í embætti fyrir Hæstarétti Egyptalands á sunnudaginn næstkomandi.

Abdel Fattah al-Sisi vann afgerandi sigur í forsetakosningunum í Egyptalandi.
Abdel Fattah al-Sisi vann afgerandi sigur í forsetakosningunum í Egyptalandi. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert