Vilja afnema konungsveldið

Þúsundir komu saman í miðborg Madrid, höfuðborg Spánar, til að krefjast þjóðaratkvæðagreiðslu um framtíð konungsríkisins, en mótmælendurnir berjast fyrir afnámi konungsveldis á Spáni.

Í síðustu viku tilkynnti Jóhann Karl Spánarkonungur, sem er 76 ára,  að hann hygðist láta af völdum og að sonur hans, Filippus krónprins, tæki við, en hann er 30 árum yngri. Talið er að Fillipus verði krýndur 19. júní.

„Spánn mun verða lýðveldi á morgun,“ hrópuðu mótmælendurnir í Madrid í dag. Þeir veifuðu rauðum, fjólubláum og gylltum fánum lýðveldisins sem var stofnað árið 1931. Það heyrði hins vegar sögunni til átta árum síðar þegar herforinginn Franco tók yfir sem einræðisherra í kjölfar borgarastyrjaldarinnar blóðugu. 

Aðeins örfáum klukkstundum eftir að Jóhann Karl Spánarkonungur greindi frá ákvörðun sinni þann 2. júní sl. fóru margir á Spáni að kalla eftir því að nýtt lýðveldi verið sett á fót.

Tugir stjórnmálaflokka á vinstri vængnum auk borgaralegra samtaka komu saman í dag til að krefjast „Þjóðaratkvæðagreiðslu strax!“ um framtíð kongsríkisins. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert