Seldi systur sína í hjónaband

Þegar Kiab varð sextán ára hét bróðir hennar henni að fara með hana í veislu í ferðamannabæ í norðurhluta Víetnam. Þess í stað seldi hann systur sína til kínverskrar fjölskyldu sem brúði.

Kiab tilheyrir Hmong-þjóðarbrotinu sem býr meðal annars í fjallahéruðum Víetnam og Kína. Hún dvaldi í tæpan mánuð í Kína þar til henni tókst að flýja eiginmanninn og fá aðstoð frá lögreglu til þess að snúa aftur til Víetnam.

„Bróðir minn er ekki mannlegur lengur í mínum augum – hann seldi systur sína til Kína,“ segir Kiab í samtali við AFP-fréttastofuna. Hún kemur fram undir dulnefni til þess að verja sig. AFP-fréttastofan ræddi við hana í búðum fyrir fórnarlömb mansals í víetnamska landamærabænum Lao Cai.

Segjast seldar í hjónaband en oft seldar í vændishús

Varnarlausar konur í löndum í kringum Kína, svo sem Víetnam, Norður-Kóreu, Laos, Kambódíu og Búrma, eru neyddar í hjónaband með kínverskum körlum þar sem skortur er á konum í landinu vegna stefnu stjórnvalda um að hjón eignist einungis eitt barn.

Tugir stúlkna búa nú í neyðarskýlinu í Lao CAi og flestar þeirra eru úr þjóðernishópum sem eru í minnihluta í landinu. Allar segja þær að ættingjar, vinir eða unnustar hafi selt þær til kínverskra karla sem væntanlegar brúðir. 

„Ég hafði heyrt margt um mansal en mér datt aldrei í hug að þetta myndi koma fyrir mig,“ segir Kiab. 

Að sögn Michaels Brosowski, stofnanda Blue Dragon Children-samtakanna, sem hafa bjargað 71 konu sem var seld til Kína frá árinu 2007, er gangverðið fyrir víetnamska stúlku allt að fimm þúsund Bandaríkjadalir, sem svarar til 570 þúsund króna.

Hann segir að ýmsum brögðum sé beitt til þess að tæla stúlkurnar, svo sem með atvinnutilboðum. Margar stúlknanna enda í vændishúsum en vegna þess hvernig litið er á stúlkur sem starfa í kynlífsiðnaði segjast þær yfirleitt hafa verið neyddar í hjónaband. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert