Vændiskona sökuð um morð

Mynd af snekkju úr safni AFP.
Mynd af snekkju úr safni AFP. AFP

Vændiskona hefur verið handtekin grunuð um að bera ábyrgð á dauða stjórnanda hjá Google fyrir sjö mánuðum síðan. Áður var talið að hann hafi látist af stórum skammti eiturlyfja. 

Alix Tichleman, 26 ára, var handtekin í Santa Cruz í Kaliforníu þann 4. júlí. Hún er sökuð um að myrt Forrest Hayes, 51 árs, í nóvember í fyrra.

Myndskeið sem nýlega kom í ljós sýnir fund þeirra Hayes og Tichleman um borð í snekkju hans í höfninni í  Santa Cruz. Þar sést hún sprauta heróíni í Hayes. Það fer greinilega illa í hann og fljótlega missir hann meðvitund. Samkvæmt tilkynningu frá lögreglu sést Tichleman taka saman hafurtask sitt í rólegheitum á meðan Hayes liggur í andarslitrunum.

Segir í yfirlýsingunni að í stað þess að hafa samband við neyðarlínu taki hún dótið sitt saman, þar á meðal heróínið og nálarnar, og klofar yfir deyjandi manninn til þess að ljúka við vínglasið sitt og lætur sig hverfa af vettvangi. Fingraför hennar fundust á glasinu, samkvæmt fréttum bandarískra fjölmiðla af málinu. Eins dró hún gluggatjöldin fyrir svo líkið sæist ekki utan frá, samkvæmt frétt ABC. Hayes var verkfræðingur að mennt og starfaði hjá nokkrum þekktum hugbúnaðarfyrirtækjum. Þegar hann lést starfaði hann hjá Google. Hann lætur eftir sig fimm börn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert