Írak gæti klofnað í þrennt

Frá átökum í Írak - Kúrdar hafa hertekið tvö olíusvæði …
Frá átökum í Írak - Kúrdar hafa hertekið tvö olíusvæði í Írak AFP

Íraskir Kúrdar hafa hertekið tvö olíusvæði í landinu en deilur hafa stigmagnast milli Kúrda og miðstjórnarinnar í Bagdad undanfarið.

Utanríkisráðherra Íraks, Hoshiyar Zebari, sem er sjálfur kúrdískur stjórnmálamaður, sagði að landið væri í hættu á að klofna ef ríkisstjórn sem tæki meira tillit til minnihlutahópa í landinu yrði ekki mynduð í bráð. „Landinu er nú bókstaflega skipt í þrjú ríki – kúrdískt ríki, svart ríki [ISIS] og Bagdad,“ bætti hann við.

Leiðtogi hins kúrdíska sjálfstjórnarhéraðs í Írak, Massoud Barzani, sagði að markmið Kúrdistans sé sjálfstæði.

Forsætisráðherra Íraks, Nouri Maliki, ásakaði Kúrda fyrir að skjóta skjólhúsi yfir öfgamenn á föstudag og í kjölfar þess sögðu kúrdískir stjórnmálamenn sig úr ríkisstjórn Írak.

Hersveitir Kúrda hafa farið inn í landsvæði í norðvesturhluta Íraks undanfarinn mánuð en íraski herinn yfirgaf landsvæðin sem um ræðir til að mæta sókn uppreisnarmanna og ISIS í landinu. Kúrdar hafa lýst því yfir að þeir hyggist halda þjóðaratkvæðagreiðslu í hinum herteknu svæðum um sjálfstæði þeirra, og eykur það enn á ólguna gagnvart miðstjórninni.

„Þetta rifrildi við Kúrda er það síðasta sem írösk stjórnvöld þurfa, því þau þurfa nú þegar að takast á við sláandi vel heppnaða uppreisn,“ sagði Mark Doyle, en hann er á vegum BBC í Bagdad.

„Þetta er þriggja hliða deila milli Kúrda, súnníta og sjía-múslima og gæti leitt til þess að landið klofni í þrennt.“

Fréttastofa breska ríkisútvarpsins, BBC, greinir frá þessu.

Massoud Barzani – Leiðtogi hins kúrdíska sjálfstjórnarhéraðs segir að markmiðið …
Massoud Barzani – Leiðtogi hins kúrdíska sjálfstjórnarhéraðs segir að markmiðið sé sjálfstæði fyrir Kúrda. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert