Nýburi fannst í endurvinnslutunnu

AFP

Nýfædd stúlka fannst yfirgefin í flöskutunnu í bæ í norðurhluta Frakklands síðdegis í gær. Talið er að stúlkan hafi fæðst nokkrum klukkutímum áður en hún fannst. Hún þjáist af ofkælingu auk þess sem hún var með skrámur á líkamanum.

Stúlkan fannst í gámi fyrir flöskur sem eiga að fara í endurvinnslu í bænum Rouvroy, skammt frá Lens, segir í frétt á vef The Local.

The Local vísar í héraðsblaðið Voix du Nord þar sem fram kemur að maður sem var að henda flöskum í tunnuna hafi fundið barnið um hálfsexleytið að staðartíma. Hann heyrði hljóð sem hann hélt að væri væl í ketti sem hefði fest í tunnunni sem var full af brotnum flöskum. Þegar hann opnaði tunnuna sá hann litlu stúlkuna sem var enn með naflastrenginn. 

Maðurinn hringdi strax á neyðarlínuna og var farið með stúlkuna á sjúkrahús í Lens. Ekki er talið að hún sé í lífshættu. Leit að móður stúlkunnar er hafin en að sögn bæjarstjórans hlýtur hún að vera örvæntingarfull, ekkert annað en örvænting fái móður til þess að grípa til þessa úrræðis.

Í síðasta mánuði var greint frá því að nýfætt barn hafi fundist inni á klósetti á Orly-flugvelli í París. Móðir þess barns hefur ekki enn fundist en klósettið þar sem barnið fæddist er í brottfararsal flugvallarins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert