Sú eina sem lifði af

Ronald Lee Haskell er ákærður fyrir morð á sex manns.
Ronald Lee Haskell er ákærður fyrir morð á sex manns. AFP

Minningarathöfn um sex manns, foreldra og fjögur börn þeirra, sem voru myrt í úthverfi Houston fyrr í vikunni fór fram í dag. Fimmtán ára gömul dóttir hjónanna er sú eina sem lifði árásina af og ávarpaði hún gesti við minningarathöfnina.

Stúlkan, Cassidy Stay, þóttist vera dáin eftir að skot straukst við höfuð hennar og slapp þannig lifandi frá morðingjanum. Hann er fyrrverandi mágur konunnar sem hann myrti. Fyrstu fréttir af skotárásinni hermdu að maðurinn hefði skotið fjögur börn sín en það var síðar leiðrétt og að börnin, sem voru á aldrinum 4-13 ára, væru börn hjónanna sem voru myrt.  

Cassidy Stay var útskrifuð af sjúkrahúsi í gær en sár sem fyrrverandi eiginmaður móðursystur hennar, Ronald Lee Haskell, veitti henni voru ekki eins alvarleg og talið var í fyrstu. 

Haskell er í gæsluvarðhaldi en hann skaut foreldra Cassidys og fjögur systkini hennar öll til bana með skoti í höfuðið. 

Það var Cassidy sem náði að hringja í neyðarlínuna og vara við því að Haskell væri á leið til afa hennar og ömmu, fyrrverandi tengdaforeldra sinna, og ætlaði að myrða þau einnig.

Að sögn lögreglu á Haskell að hafa verið að leita að fyrrverandi eiginkonu sinni Melannie Lyon á heimili Stay-fjölskyldunnar, en hún hafði búið hjá systur sinni og mági um tíma í fyrra þegar hún flutti frá Utah eftir skilnaðinn við Haskell.

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem Haskell kemst í kast við lögin því árið 2008 var hann kærður fyrir heimilisofbeldi. En hann var sakaður um að hafa dregið eiginkonu sína á hárinu og barið hana. Í fyrra fékk hún nálgunarbann á hann og var hann handtekinn sama dag og það tók gildi fyrir að brjóta gegn því.

Fyrr í þessum mánuði á Haskell að hafa ráðist á móður sína, bundið hana og reynt að kæfa. Ástæðan var að sögn lögreglu sú að hún hafði enn samband við fyrrverandi eiginkonu hans.

Að sögn lögreglu var hann ekki handtekinn en sett var nálgunarbann á hann gagnvart móður sinni.

Frétt ABC

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert