Grín gert að fórnarlambi nauðgunar

Margir hafa sett út myndir á Twitter þar sem þeir …
Margir hafa sett út myndir á Twitter þar sem þeir gera grín að fórnarlambinu. Mynd/Twitter

Í síðasta mánuði var 16 ára stúlku í Houston í Bandaríkjunum byrluð ólyfjan áður en árásarmaðurinn nauðgaði henni. Lögreglan kom að henni þar sem hún lá meðvitundarlaus fyrir utan húsið þar sem hún hafði verið að skemmta sér. Á mynd sem tekin var af aðgerðum lögreglu má sjá stúlkuna liggja á gangstéttinni í einkennilegri líkamsstellingu og í kjölfarið hafa mörg ungmenni vestanhafs tekið myndir af sér í sömu stellingunni og sett á samfélagsmiðla. 

Á meðal þeirra sem hafa gert grín að stúlkunni á samfélagsmiðlum er árásarmaðurinn sjálfur. „Ég og vinir mínir erum lögð í einelti. Við getum varla farið út úr húsi, þetta er mjög niðurlægjandi,“ segir stúlkan í viðtali við sjónvarpsstöðina KHOU 11

Undir kassamerkinu #jadapose hafa óprúttnir aðilar sett inn myndir sem gera grín að stúlkunni en nú síðustu daga hafa stuðningsmenn hennar „tekið yfir“ kassamerkið og sent inn stuðningsyfirlýsingar til hennar. „Allir þeir sem senda inn myndir af sér undir kassamerkinu #jadapose þurfa að leita sér hjálpar,“ skrifar einn á Twitter. Stúlkan segist hafa orðið fyrir tveimur árásum; annars vegar nauðguninni og hins vegar í netheimum í kjölfarið. „Engin stúlka á slíkar árásir skilið. Engin manneskja á slíkar árásir skilið,“ sagði móðir stúlkunnar í samtali við Houston Press. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert