„Í nótt grétu þær af ótta“

Veikur og særður maður liggur á gangi Al-Wafa-sjúkrahússins skammt frá …
Veikur og særður maður liggur á gangi Al-Wafa-sjúkrahússins skammt frá Gaza-borg. AFP

Á Al-Wafa-endurhæfingarsjúkrahúsinu í nágrenni Gaza-borgar stendur hópur lækna og hjúkrunarfræðinga yfir lömuðum sjúklingum sínum og veltir því fyrir sér hvernig þeir geti verndað þá fyrir loftárásum Ísraelshers.

Sjúklingarnir liggja flestir hreyfingarlausir í rúmum sínum sem komið hefur verið fyrir í röðum við móttökuna á spítalanum. Þangað voru rúmin flutt eftir að flugskeyti lenti á fjórðu hæð hússins. Starfsfólk spítalans hefur biðlað til alþjóðastofnana að fá vernd. Það segir að Ísraelsher viti af spítalanum á þessu svæði. En aðfaranótt þriðjudags varð sjúkrahúsið enn á ný fyrir sprengju.

Skömmu síðar hafði talsmaður Ísraelshers samband við sjúkrahúsið í þrígang og sagði að það yrði að rýma spítalann strax því að herinn væri að undirbúa frekari loftárásir.

Forstjóri sjúkrahússins, Basman Alashi, útskýrði að sjúklingarnir fjórtán, sem flestir eru lamaðir og sumir auk þess í dái, gætu ekki farið af spítalanum. Og jafnvel þótt þeir gætu það væri enginn annar staður sem þeir gætu farið á.

„Það er enginn öruggur staðar á Gaza! Ef sjúkrahúsið er ekki öruggt, hvar er þá öruggt?“ spyr hann. „Við getum ekki yfirgefið sjúklinga okkar, þeir eru hjálparvana. Þeir geta ekki hreyft sig, ekki gengið, geta ekki borðað sjálfir og geta ekki einu sinni klórað sér í höfðinu sjálfir.“

Á meðan hann talar heyrast sprengingar í nágrenninu.

Yfir 200 manns hafa látist á Gaza síðan átök brutust út milli Hamas-samtakanna og Ísraelshers snemma dags hinn 8. júlí.

Læknirinn Hassan Sarsur segir að kannski sem betur fer séu margir sjúklingarnir á endurhæfingarsjúkrahúsinu meðvitundarlausir og viti því ekki hvað er að gerast í kringum þá.

Aðrir eru skelfingu lostnir.

„Nokkrir af okkar kvenkyns sjúklingum eru lamaðir en með meðvitund. Í nótt grétu þær af ótta,“ segir Sarsur.

Aya Abdeen, ein átta kvenna sem liggja á sjúkrahúsinu, er lömuð fyrir neðan mitti vegna æxlis sem hún fékk við mænuna.

„Í gær þegar þeir sögðu að við þyrftum að rýma sjúkrahúsið og allar sprengjurnar voru að springa var ég auðvitað hrædd,“ segir við AFP-fréttastofuna.

„Það sprungu sprengjur hér allt um kring og sjúkrahúsið hristist. Og eins og þú sérð, þá get ég ekki hreyft mig. Við erum veikt fólk, á sjúkrahúsi!“

Berjast við þreytu og hræðslu

Karam Shublaq fékk byssukúlu í mænuna árið 2006 og er einnig lamaður fyrir neðan mitti. „Við vöknum við sprengingar og sofnum við sprengingar. Við getum ekki einu sinni hreyft okkur en samt féllu sprengjur á fjórðu hæðina nokkrum sinnum. Þess vegna vorum við flutt til.“

Starfsfólkið vinnur á sólarhringsvöktum. Það berst bæði við þreytu og hræðslu. „Við erum mannleg, auðvitað erum við hrædd,“ segir læknirinn Sarsur. „Við vitum ekki hvað við getum gert til að vernda sjúklingana. Við erum þegar búin að rýma fjórðu hæðina og nú höfum við rýmt allt húsið fyrir utan svæðið hér við móttökuna.“

Nokkrir sjúklingar hafa verið sendir heim til ættingja sinna. En aðrir þurfa lyfjagjöf og meiri aðhlynningu en ættingjar þeirra geta veitt þeim. 

Hinn sextán ára gamli Nur Okasha hefur verið á sjúkrahúsinu í viku til að gæta þrettán ára bróður síns, Mohammeds. Mohammed hefur verið í dái í nokkra mánuði eftir að hafa næstum drukknað.

Hann liggur hreyfingarlaus í rúminu með augun hálfopin.

Talar um allt nema stríðið

„Við vildum taka hann heim, en hann er með slöngu í hálsinum og þarf að vera tengdur við sogvél. Við erum ekki alltaf með rafmagn heima,“ segir bróðirinn. Hann situr við hlið bróður síns og setur dropa í augu hans og talar við hann.

„Ég vil að hann viti að það er einhver hérna hjá honum. Ég segi honum að vinir hans sakni hans. Ég segi honum frá flestu, nema stríðinu.“

Læknarnir á sjúkrahúsinu hafa beðið alþjóðastofnanir að sjá til þess að Ísraelsher beini sprengjum sínum ekki að spítalanum aftur. „Ísraelsher hefur sagt þessum stofnunum að spítalinn sé ekki skotmark, aðeins svæðið í kringum hann. En sprengjur hafa nú þegar fallið á okkur,“ segir Sarsur.

„Við erum hjálparvana. Stríðið kemur til okkar og það er ekkert sem við getum gert til að stöðva það.“

Sjúklingarnir liggja nú á göngunum, við móttöku sjúkrahússins.
Sjúklingarnir liggja nú á göngunum, við móttöku sjúkrahússins. AFP
Ekki er hægt að senda þá sjúklinga heim sem þurfa …
Ekki er hægt að senda þá sjúklinga heim sem þurfa að vera í öndunarvélum og að fá lyfjagjafir reglulega. AFP
Basman Alashi, forstjóri Al-Wafa-sjúkrahússins.
Basman Alashi, forstjóri Al-Wafa-sjúkrahússins. AFP
Sjúklingarnir liggja nú á göngunum því sprengjur féllu á efri …
Sjúklingarnir liggja nú á göngunum því sprengjur féllu á efri hæðir hússins. AFP
Tóm sjúkrastofa. Ekki var óhætt að hafa sjúklingana inni á …
Tóm sjúkrastofa. Ekki var óhætt að hafa sjúklingana inni á sjúkrastofunum. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert