24 hafa látist í dag

Samkvæmt sjúkraliðum á Gaza hafa 24 látist í hernaðaraðgerðum Ísraelshers þar í dag, þar á meðal þrír palestínskir unglingar.  Unglingarnir létust eftir að ísraelskur skriðdreki skaut á þá í bænum Beit Hanun í norður Palestínu í morgun.

Jafnframt lést fimm mánaða gamalt barn í árásum ísraelska hersins á borgina Rafah í suðurhluta Gaza fyrr í dag. 

Samkvæmt tölum frá mannréttindamiðstöð Palestínu eru almennir borgarar 80% þeirra sem hafa látist í árásum Ísraela síðan þær hófust 8. júlí. Jafnframt hafa að minnsta kosti 1920 Palestínumenn særst í átökunum. 

Síðan að aðgerðir Ísraelshers hófust á Gaza hefur að minnsta kosti 1164 eldflaugum verið skotið frá Gaza til Ísrael. Jafnframt hafa 320 eldflaugum verið grandað af eldflaugavarnarkerfi Ísrael, Iron Dome. 

Með dauðsföllunum í morgun hafa 265 manns látist í loftárásum Ísraelshers sem staðið hafa nú yfir í 11 daga. Í gærkvöldi hóf herinn landhernað á Gaza og segir hann það vera til þess að svara ítrekuðum flugárásum frá Hamas-samtökunum. 

Ísraelskur hermaður lést á Gaza í gærkvöldi og eru þá dauðsföll Ísraelsmanna í átökum síðustu daga orðin tvö. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert