Aðskilnaðarsinnar að öllum líkindum að verki

Malasíska farþegaþotan var að öllum líkindum skotin niður af aðskilnaðarsinnum í austurhluta Úkraínu. CNN segir þetta bráðabirgðaniðurstöðu greiningar bandarískra rannsóknaraðila. Hefur sjónvarpsstöðin þetta eftir ónafngreindum heimildarmanni innan varnarmálaráðuneytisins. Niðurstaða greiningarinnar bendir til að uppreisnarmennirnir hafi talið sig vera að skjóta á fraktvél úkraínska hersins.

AFP-fréttastofan hefur einnig fengið þetta staðfest, en heimildarmaður þeirra ítrekar að um bráðabirgðaniðurstöðu sé að ræða. Telja bandarísku sérfræðingarnir að um BUK-flugskeyti hafi verið að ræða. Sprengjurnar eru framleiddar í Rússlandi og notaðar bæði af Úkraínuher og aðskilnaðarsinnum. Hins vegar hefur verið staðfest að uppreisnarmennirnir í austurhluta Úkraínu hafi fengið slík flugskeyti í hendur aðeins nokkrum klukkustundum áður en skotið var á vélina af jörðu niðri.

Malaysian Airlines hefur nú staðfest að 189 Hollendingar voru meðal farþega í vélinni. 298 voru um borð, þar af fimmtán manna áhöfn frá Malasíu. Áttatíu börn voru um borð. Allir eru taldir af.

181 lík hefur fundist við flak vélarinnar.

Aðskilnaðarsinnar, sem vilja að austurhluti Úkraínu verði hluti af Rússlandi, veittu loks í morgun úkraínska hernum aðgang að slysstaðnum.

„Hryðjuverkamenn hafa drepið næstum 300 manns með einu skoti,“ sagði forseti Úkraínu, Petro Porosjenkó í dag. Vladimír Pútín, forseti Rússlands, heldur hinu gagnstæða fram og segir sökina liggja hjá úkraínskum stjórnvöldum sem hafi hert aðgerðir sínar á svæðinu að undanförnu.

189 Hollendingar voru um borð í vélinni. Þeirra er nú …
189 Hollendingar voru um borð í vélinni. Þeirra er nú minnst víða um Holland. AFP
Brak á slysstað.
Brak á slysstað. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert