Fer ein til Möltu

Katrín hertogaynja ásamt Georgi syni sínum.
Katrín hertogaynja ásamt Georgi syni sínum. AFP

Kensington-höll tilkynnti í dag að Katrín hertogaynja, eiginkona Vilhjálms Bretaprins, myndi fara í opinbera heimsökn til Möltu í september. Heimsókn Katrínar til eyjunnar er sérstök að því leyti að þetta er í fyrsta skipti sem hún fer í opinbera heimsókn án eiginmanns síns. 

Katrín mun koma fram fyrir hönd Elísabetar drottningar á Möltu dagana 20. og 21. september í tilefni af fimmtíu ára sjálfstæði eyjunnar. Hún var áður undir stjórn Breta. 

Hvorki Vilhjálmur né sonur þeirra, Georg prins, sem verður eins árs á morgun, fara með og verður Katrín aðeins eina nótt í burtu. 

Vilhjálmur og Katrín eru bæði 32 ára. Þau giftu sig í apríl 2011. Þau hafa heimsótt fjölmarga staði síðan eins og Kanada, Bandaríkin og Malasíu. Fyrr á þessu ári heimsóttu þau Nýja-Sjáland og Ástralíu og var þá Georg með í för í sinni fyrstu opinberu heimsókn. 

Elísabet Bretlandsdrottning hefur lengi verið hrifin af Möltu. Hún og eiginmaður hennar Philip prins bjuggu þar árin 1949 til 1951 en Elísabet tók við krúnunni 1952. 

Philip prins starfaði fyrir breska sjóherinn á Möltu og er það í eina skiptið sem Elísabet hefur búið fyrir utan Bretland. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert