Vilja senda hersveitir að flaki MH17

Við flak MH17
Við flak MH17 AFP

Hollenski herinn býr sig undir að senda hersveitir til Úkraínu til að ná flakinu af MH17 úr höndum uppreisnarmanna. Þetta er haft eftir varnarmálaráðuneyti Hollands.

Forsætisráðherra Hollands, Mark Rutte sagði í dag að ákvörðun um hvort hersveitir verði sendar til landsins gæti verið tekin um helgina.

Hollenskum hermönnum hefur verið gert að vera í viðbragðsstöðu í herstöðvum, og öll leyfi hermanna hafa verið afturkölluð.

Flestir þeirra sem fórust í flugslysinu voru af hollenskum og áströlskum uppruna. Báðar þjóðirnar leita nú leiða til að senda hermann sína á vettvang til að ná flakinu úr höndum uppreisnarmanna. Meðal annars er verið að kanna hvort Öryggisráð Sameinuðu þjóaðanna álykti að senda hersveitir á vettvang.

Hollendingar hafa þegar sent 40 óvopnaða herlögreglumenn á staðinn, en rannsóknarmenn hafa ekki getað komist að flakinu af öryggisástæðum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert