Neyðarástand vegna ebólu

Læknir án landamæra að störfum í Gíneu.
Læknir án landamæra að störfum í Gíneu. AFP

Forseti Sierra Leone í Vestur-Afríku hefur lýst yfir neyðarástandi vegna ebólu-faraldursins sem er sá skæðasti í sögunni. Ákveðin svæði í austurhluta landsins verða sett í sóttkví vegna faraldursins og mun herinn sjá til þess að reglum um umgengni milli svæða verði framfylgt, segir í frétt BBC um málið.

Samtökin Læknar án landamæra segja að faraldurinn, sem geisar í Gíneu, Líberíu og Sierra Leone, eigi aðeins eftir að versna. Samtökin segja að alla yfirsýn vanti um útbreiðslu hans.

Bandaríkin hafa ákveðið að flytja friðargæsluliða sína, sem starfa í Vestur-Afríku, heim. Bandarísku góðgerðarsamtökin Samaritan's Purse hafa einnig ákveðið að senda trúboða sína heim frá Líberíu.

Yfir 670 manns hafa látist úr sjúkdómnum frá því í febrúar en um 90% þeirra sem smitast af vírusnum deyja af hans völdum.

Ótti um að faraldurinn kunni að breiðast út til annarra ríkja, m.a. til Evrópu, hefur aukist. Vísindamaðurinn sem kom að því að uppgötva vírusinn á sínum tíma segir hins vegar ólíklegt að faraldurinn breiðist út til margra annarra landa. Peter Piot, vísindamaðurinn belgíski sem nú býr í Bretlandi, var meðal þeirra sem greindu vírusinn fyrst árið 1976.

Læknirinn Sheik Umar Khan, sem hefur farið fyrir baráttunni gegn ebólu í Sierrra Leone lést úr sjúkdómnum. Hann verður jarðaður í dag. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert