Tekist á um sjálfstæði frá Spáni

Stuðningsmenn sjálfstæðis Katalóníu héldu fána sjálfsstjórnarhéraðsins á lofti í kröfugöngu …
Stuðningsmenn sjálfstæðis Katalóníu héldu fána sjálfsstjórnarhéraðsins á lofti í kröfugöngu þar sem spænska konungsríkinu var mótmælt þann 26. júní. AFP

Katalónar eru staðráðnir í því að kjósa í haust um sjálfstæði frá Spáni og skella skollaeyrum við því að spænsk stjórnvöld segi slíka þjóðaratkvæðagreiðslu ólöglega samkvæmt stjórnarskrá Spánar.

Katalónía er auðugasta sjálfsstjórnarhérað Spánar, auk þess að hafa eigið tungumál og sérstæða menningu. Efnahagskreppan síðustu ár er meðal þess sem ýtt hefur undir sjálfstæðisvilja Katalóna, sem sumir hverjir líta á aðra hluta Spánar sem efnahagslegan dragbít.

Artur Mas, forseti Katalóníu og leiðtogi flokksins Convergència Democràtica de Catalunya (CDC), fundaði með forsætisráðherra Spánar, Mariano Rajoy, í tvær klukkustundir í gær og var gallharður í afstöðu sinni þegar hann ræddi við fjölmiðla að fundinum loknum.

„Skilaboð mín eru nákvæmlega þau sömu og fyrir ári síðan, við erum algjörlega staðráðin í því að standa fyrir atkvæðagreiðslu,“ sagði Mas. Um leið ítrekaði Rajoy jafnframt þá afstöðu sína að atkvæðagreiðslan yrði andstæð stjórnarskrá Spánar.

Kallast á við sjálfstæðistilburði Skota

Katalónar horfa m.a. til fordæmis Skota, sem hyggjast halda þjóðaratkvæðagreiðslu um sjálfstæði frá Bretlandi í september. Stjórnvöld í Katalóníu ákváðu að feta í þeirra fótspor tveimur mánuðum síðar, og kjósa um sjálfstæði að óbreyttu þann 9. nóvember.

Áhugaverður munur er á stöðu þessara tveggja mála. Í Skotlandi fer atkvæðagreiðslan fram með samþykki stjórnvalda í London, en skoðanakannanir sýna að almenningur er tvíklofinn í afstöðu sinni og óvíst hver niðurstaðan verður. Í Katalóníu hinsvegar er atkvæðagreiðslan boðuð gegn vilja stjórnvalda í Madrid, en skoðanakannanir gefa til kynna að meirihluti Katalóna styðji sjálfstæði frá Spáni.

Rajoy segist munu beita sér fyrir því að stöðva atkvæðagreiðsluna haldi stjórnvöld í Katalóníu henni til streitu.

Hagkerfi Katalóníu er álíka stórt og nágrannalandsins Portúgal, þar sem búa um 10,5 milljónir manna. Katalónar eru hinsvegar 7,5 milljónir talsins, eða um 16% af spænsku samfélagi.

Katalónía hefur um nokkurt skeið verið burðarliður í spænsku hagkerfi. Tekjurnar koma ekki síst úr ferðamennsku og iðnaði tengdum henni, því höfuðborg héraðsins Barcelona er einhver vinsælasta ferðamannaborg Evrópu. Það má meðal annars rekja til sumarólympíuleikanna 1992, sem komu borginni á kortið, en mikil uppbygging á svæðinu í tengslum við þá var að hluta fjármögnuð af landsstjórninni úr ríkissjóði Spánar.

Stuðningur við sjálfstæði tvöfaldast á 4 árum

Vaxandi andstaða er hinsvegar meðal íbúa sjálfstjórnarhéraðsins gegn því að skattgreiðslur þeirra dreifist um landið allt. Þeir telja að Katalóníu myndi farnast betur á eigin vegum. Spánn fór illa út úr hruninu 2008 sem varð m.a. til þess að stjórnlagadómstóll ákvað árið 2010 að draga úr áhrifum laga sem samþykkt voru 2006 og veittu Katalóníu aukið sjálfsstjórnarvald.

Þetta hefur ýtt undir óánægju Katalóna, auk þess sem Artur Mas hefur kynt mjög undir sjálfstæði síðan hann tók við völdum árið 2010. Í október 2010 mældist stuðningur Katalóna við sjálfstæði frá Spáni aðeins 20% í skoðanakönnun, en í ár hafa skoðanakannanir sýnt að allt að 60% myndu greiða atkvæði með sjálfstæði.

Kannanir sýna þó jafnframt að stuðningur við sjálfstæði er minni, ef því myndi fylgja úrsögn úr Evrópusambandinu. Katalónar virðast því, líkt og Skotar, vilja sjálfstæði frá alríkinu en styrkja um leið hin yfirþjóðlegu milliríkjatengsl. 

Bæði framkvæmdastjórn ESB og Nató hafa varað Katalóna við því að þeir verði einir á báti slíti þeir sig frá Spáni. Það hvernig Skotum farnast í þessum efnum gæti þó haft mikið að segja um hvernig málin þróast í Katalóníu. Þegar Jean Claude Juncker, nýkjörinn forseti framkvæmdastjórnar ESB, sagði í ræðu um miðjan júlí að fleiri ríkjum yrði ekki hleypt í sambandið næstu 5 árin, þá fylgdi sögunni að það ætti þó ekki við um Skotland, sem gæti sótt um aðild sem sjálfstætt ríki fari atkvæðagreiðslan svo.

Mariano Rajoy forsætisráðherra Spánar og Artur Mas forseti sjálfsstjórnarhéraðsins Katalóníu …
Mariano Rajoy forsætisráðherra Spánar og Artur Mas forseti sjálfsstjórnarhéraðsins Katalóníu áttu langan fund í gær án þess að afstaða þeirra breyttist nokkuð. AFP
Andstæðingar sjálfstæði Katalóníu létu í sér heyra í Barcelona í …
Andstæðingar sjálfstæði Katalóníu létu í sér heyra í Barcelona í gær, og héldu m.a. skjaldamerki spænsku krúnunnar á lofti. AFP
Stuðningsmenn sjálfstæðis Katalóníu í kröfugöngu þar sem konungsdæminu var mótmælt …
Stuðningsmenn sjálfstæðis Katalóníu í kröfugöngu þar sem konungsdæminu var mótmælt í Girona þann 26. júní. AFP
Andstæðingar sjálfstæði Katalóníu létu í sér heyra í Barcelona í …
Andstæðingar sjálfstæði Katalóníu létu í sér heyra í Barcelona í gær. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert