Gleymdi dóttur í bíl og hún dó

mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir

Karlmaður frá Kansas hefur verið ákærður fyrir morð en tíu mánaða fósturdóttir hans lést er hún var skilin eftir í heitum bíl í meira en tvær klukkustundir.

Í frétt Reuters um málið segir að maðurinn, Seth Jackson sé 29 ára. Hann hefur verið í haldi gegn tryggingu frá því að barnið lést í bíl hans í síðustu viku.

Jackson og fimm ára drengur, sem einnig er fóstursonur hans, komu heim til sín 24. júlí, fóru inn en skyldu litlu stúlkuna eftir í bílnum, bundna fasta í bílstól. Þar var hún í rúmlega tvær klukkustundir.

Maðurinn segist ekki hafa munað eftir stúlkunni í bílnum fyrr en hann sá eitthvað í sjónvarpinu sem minnti hann á hana. Hann segist þá hafa farið út að bílnum en stúlkan hafi þá þegar verið látin.

Í Bandaríkjunum hafa verið stofnuð samtök, Börn í bílum (e. Kids in Cars) sem fylgjast með dauðsföllum barna í bifreiðum. Talsmaður samtakanna segir að svo virðist sem Jackson hafi einfaldlega gleymt fósturdóttur sinni í bílnum og því sé harkalegt að ákæra hann fyrir morð.

Á þessu ári hafa átján börn dáið í heitum bílum í Bandaríkjunum svo vitað sé. Á síðasta ári létust 44 börn í heitum bílum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert