Verslanir mega ekki henda mat

Yfir hundrað milljón tonnum af mat er hent á hverju …
Yfir hundrað milljón tonnum af mat er hent á hverju ári. AFP

Hópur þingmanna á franska þinginu hefur lagt drög að frumvarpi sem skyldar matvöruverslanir til þess að gefa til góðgerðarmála allan þann mat sem ekki selst. Telegraph greinir frá þessu.

Verði frumvarpið að lögum mun það taka til allra matvöruverslana sem hafa þúsund fermetra verslunarrými eða meira. Margir stórmarkaðir gefa nú þegar matvörur sem eru útrunnar eða óseldar, en að öðru leyti í góðu lagi, til góðgerðarmála. 63 þingmenn vilja hins vegar gera gjafirnar að lögum.

Sambærileg lög voru sett í Belgíu í maí, fyrst allra Evrópuríkja. Lagasetningin kom í kjölfar tillagna frá Evrópusambandinu sem kveða á um að fjarlægja „best fyrir“-merkingar af ýmsum vörum, svo sem pasta, kaffi, hrísgrjónum og sultu.

Með því að fjarlægja merkingarnar er reynt að stemma stigu við því gífurlega magni af mat sem er hent, en talið er að yfir hundrað milljónir tonna af matvöru endi í ruslinu á hverju ári.

Alþjóðamatvælastofnunin (WFO) segir að þriðjungur allrar matvöru, sem enn er góð til neyslu, fari til spillis. Franskar matvöruverslanir henda um 200 tonnum árlega, en hinn almenni Frakki hendir á bilinu 20-30 kílóum af mat í ruslið á hverju ári.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert