Sprengdu upp íbúðarhús

Hér sést reykur stíga til himins eftir að húsin í …
Hér sést reykur stíga til himins eftir að húsin í Hebron voru sprengd upp í nótt. AFP

Ísraelsher tilkynnti í dag að búið væri að sprengja upp heimili tveggja manna sem grunaðir eru um að hafa rænt og myrt þrjá ísraelska unglingsdrengi í júní. 

Þeir Naftali Frenkel, Gilad Shaer og Eyal Yifrach hurfu á Vesturbakkanum 12. júní. Lík þeirra fundust 30. júní og hafa ísraelsk stjórnvöld kennt Hamas-samtökunum um morðin.  

Hvarf og morð drengjanna ýttu undir atburðina sem leiddu til átakanna á Gaza undanfarnar vikur þar sem um 2000 manns hafa látið lífið. 

Að sögn Ísraelsmanna voru þrír Palestínumenn á bakvið morðin. Þeir búa allir í borginni Hebron. Einn þeirra, Hossam Qawashmeh, var handtekinn í júlí en hinir tveir, Marwan Qawashmeh og Amer Abu Eisha, eru enn lausir. 

„Í nótt eyðilögðu öryggissveitir – sem hluti af aðgerðum til þess að berjast við hryðjuverk á svæðinuh – hús þeirra Hossams Qawasmeh og Amers Abu Eisha. Jafnframt er búið að girða af heimili Marwans Qawasmeh,“ sagði í yfirlýsingu frá hernum.  

Ísraelskir embættismenn halda því fram að mennirnir þrír séu Hamas-liðar og að Hossam Qawasmeh sé leiðtogi hópsins. Talsmaður hersins, Peter Lerner, sagði í samtali við AFP að mannránið hafi verið skipulagt af Hossam, sem væri háttsettur Hamas-liði. Á hann að hafa sent hina tvo til þess að fremja ódæðið. 

AFP
Palestínumenn skoða rústirnar sem mynduðust.
Palestínumenn skoða rústirnar sem mynduðust. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert