Yfir tvö þúsund látnir á Gaza

Palestínumenn skoða eyðilögð hús á Gaza.
Palestínumenn skoða eyðilögð hús á Gaza. AFP

Fjöldi látinna á Gaza-ströndinni fór yfir tvö þúsund manns í dag samkvæmt upplýsingum frá heilbrigðisráðuneyti Gaza í kjölfar þess að einstaklingar sem særst höfðu í átökunum létust af sárum sínum á sjúkrahúsum.

Fram kemur í frétt AFP að samtals hafi 2.016 manns látist á Gaza og 10.196 særst. Á meðal hinna látnu séu 541 barn, 250 konur og 95 aldraðir karlmenn. Ennfremur segir að fjöldi látinna hafi verið 1.980 þar til nokkur fjöldi einstaklinga lét lífið á sjúkrahúsum á Gaza, í Jerúsalem og Kaíró þangað sem þeir höfðu verið fluttir til þess að gera að sárum þeirra. Ekki kom fram hversu margir hinna látnu voru vopnaðir menn.

Þá segir að samkvæmt upplýsingum frá stjórnvöldum í Ísrael hafi 64 ísraelskir hermenn látið lífið í átökunum. Þar af fimm sem orðið hafi fyrir skotum frá eigin mönnum. Ekki fylgdu upplýsingar um með hvaða hætti það hefði átt sér stað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert