Átök þrátt fyrir vopnahlé

Reykur stígur til himins eftir loftárás Ísraelshers á borgina Rafah …
Reykur stígur til himins eftir loftárás Ísraelshers á borgina Rafah í Suður-Gaza í dag. AFP

Ísraelsher hóf loftárásir á Gaza að nýju í dag. Forsætisráðherra Ísraels, Benjamin Netanyahu, fyrirskipaði loftárásirnar eftir að þremur eldflaugum var skotið frá Palestínu yfir til Suður-Ísraels.

Jafnframt hafa stjórnvöld í Ísrael fyrirskipað samninganefnd sinni að yfirgefa Kaíró í Egyptalandi. Þar hafa viðræður um áframhaldandi vopnahlé staðið yfir síðustu daga. Í gærkvöldi tókst samninganefndunum að framlengja vopnahléið um einn sólarhring og átti það að renna út á miðnætti. 

Vitni í Palestínu segja að loftárásum Ísraelsmanna hafi verið beint að opnum svæðum nálægt borgunum Beit Lahiya á Norður-Gaza, Maghazi og Khan Yunis og Rafha á Suður-Gaza.

Ekki hefur verið tilkynnt um slys á fólki eða skemmdir, hvorki í Ísrael eða Palestínu. Enginn hefur þó lýst yfir ábyrgð á eldflaugaárásunum frá Palestínu. 

Utanríkisráðuneyti Ísraels hefur lýst því yfir að eldflaugaárásirnar frá Palestínu hafi verið brot á vopnahléinu. 

Ísraelsher hefur jafnframt tilkynnt að hann væri nú að beina árásum sínum að „hryðjuverkasvæðum á Gaza“ í kjölfar eldflaugaárásana. 

„Enn á ný hafa hryðjuverkamenn rofið vopnahlé og hafið árásir á ísraelska borgara,“ sagði talsmaður Ísraelshers, Peter Lerner, í tilkynningu. 

Talsmaður Hamas, Sami Abu Zuhri, hefur ásakað Ísrael um að eyðileggja viðræðurnar í Kaíró síðustu daga. „Við höfum engar upplýsingar um eldflaugaárásir frá Gaza. Árásir Ísraelshers í dag eru þó augljóslega hannaðar til þess að stöðva viðræðunnar í Kaíró,“ sagði hann í samtali við AFP. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert