Ríki íslams kaupir vestræna fanga

Blaðamaðurinn James Foley var tekinn af lífi af skæruliðasamtökunum Ríki …
Blaðamaðurinn James Foley var tekinn af lífi af skæruliðasamtökunum Ríki Íslams um síðustu helgi. Mynd/AFP

Að sögn breska dagblaðsins The Guardian halda samtökin Ríki íslams um 20 vestrænum mönnum sem gíslum. Anders Romarheim, fræðimaður í norska herskólanum, segir glæpamenn í Írak standa fyrir mannránunum áður en gíslarnir eru seldir til samtakanna. 

Um síðustu helgi var bandaríski blaðamaðurinn James Foley tekinn af lífi af samtökunum. Í myndbandinu sem birtist af aftökunni telja menn sig einnig sjá öðrum bandarískum blaðamanni bregða fyrir sem saknað hefur verið í nokkurn tíma. The Guardian heldur því fram að af þeim 20 einstaklingum sem samtökin halda föngnum séu meðal annars Danir, Ítalir og Japanir. Þeir hafi starfað við ýmist hjálparstörf eða fréttamennsku á svæðinu áður en þeim var rænt. 

Ríki íslams, IS eins og samtökin eru oft kölluð, eru talin ein ríkustu skæruliðasamtök heims. Á ferð sinni í gegnum Írak hafa þeir náð völdum yfir olíulindum og bönkum, sem auka á auðæfi þeirra. Hafa samtökin eytt hluta fjármagnsins til þess að kaupa vestræna fanga af minni skæruliðahreyfingum. 

Romarheim rannsakaði á sínum tíma gíslatökur al-Qaida -amtakanna í Írak á árunum 2004-2008. Niðurstöður rannsókna hans benda til þess að um helmingur gíslanna kemst lífs af. „Breskir og bandarískir gíslar eru svo gott sem dauðadæmdir. Í öllum þeim tilvikum þar sem skæruliðasamtök settu stjórnvöldum þessara landa afarkosti, voru gíslarnir teknir af lífi,“ segir Romarheim. 

Hann bætir því við að ef líkurnar eru taldar litlar á því að gísl muni komast lífs af, þá sé oft besti kosturinn í stöðunni að reyna björgunaraðgerðir, líkt og bandarísk yfirvöld reyndu í tilfelli Foleys

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert