Dóttir Husseins styður Ríki íslam

Raghad, elsta dóttir Saddams Husseins.
Raghad, elsta dóttir Saddams Husseins.

Raghad, elsta dóttir Saddams Husseins, notar auð sinn til að styðja íslamistasamtökin Ríki íslams, sem hafa lagt undir sig landsvæði í Sýrlandi og Írak og fara um með ógn og ofbeldi, að því er kemur fram á fréttavef Der Spiegel.

Þar segir að dóttir fyrrverandi leiðtoga Íraks hyggi á hefnd og líkt og marga stuðningsmanna föður hennar dreymi hana um að snúa aftur til valda.

Raghad Hussein býr í munaði í útlegð í Jórdaníu og er sögð eiga tugi milljóna dollara. Í Der Spiegel segir að hún sé þekkt í skartgripa- og tískuverslunum í Amman.

Hún er sögð fylgja straumum og stefnum. Áður var hún veraldlega sinnuð í anda hugmyndafræði Baath-flokks föður síns og nýtískuleg, en nú hefur hún uppgötvað trúna. Í júní lofsamaði hún í viðtali landvinninga Ríkis íslams.

Almennt heldur hún sig þó til hlés í pólitík, enda er það skilyrði fyrir veru hennar í Jórdaníu. Interpol gaf út handtökuskipun á hendur henni 2007 fyrir að styðja uppreisnarmenn gegn Bandaríkjamönnum og bandamönnum þeirra í Írak. Jórdanar framseldu hana ekki. Nú kvarta erlendir stjórnarerindrekar undan því að hún styðji öfgasamtökin.

Raghad Hussein, sem er 45 ára og gerði strax eftir fall föður síns tilkall til valda, er ekki ein um að styðja samtökin úr valdahring hans. Ýmsir háttsettir foringjar úr her hans eru einnig spyrtir við Ríki íslams. Einn þeirra, sem hafði beðið um að komast í íraska herinn, sagði að nú væri hann kominn í Ríki íslams og bætti við: „Við komum og höggvum ykkur í spað.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert