Aðeins 2-3 fá að bjóða sig fram

Frá mótmælunum í Hong Kong í sumar.
Frá mótmælunum í Hong Kong í sumar. AFP

Stjórnvöld í Kína hafa lýst því yfir að þau muni velja tvo til þrjá frambjóðendur sem verði í framboði í kosningu á landstjóra í Hong Kong, en kosningarnar eiga að fara fram 2017. Búist er við að þessi ákvörðun leiði til mótmæla í Hong Kong, en íbúar þar hafa krafist að allir eigi kost á að bjóða sig fram.

Í tilkynningu kínverskra stjórnvalda segir að tveir til þrír frambjóðendur verði valdir af nefnd, en í henni sitji fulltrúar þjóðarinnar. Kosningarnar 2017 séu sögulegt skref, en mikilvægt sé að tryggja öryggi svæðisins og að þessi skref í átt til lýðræðis séu tekin án þess að raska stöðugleika.

Yfir hálf milljón manna tók þátt í kröfugöngu á göt­um Hong Kong í sumar þar sem krafist var lýðræðisumbóta. Margir eru afar óánægðir með þá kröfu kínverskra yfirvalda að samþykkja þá frambjóðendur sem munu fá að bjóða sig fram þegar nýr leiðtogi svæðisins verður kjörinn.

Í sumar tóku tæplega 800.000 manns þátt í óformlegri atkvæðagreiðslu þar sem þess var krafist að kjósendur kæmu að því hverjir verða útnefndir frambjóðendur. Stjórnvöld í Peking sögðu að at­kvæðagreiðslan væri bæði ólögmæt og ógild.

Búist er við hörðum viðbrögðum við ákvörðun kínverska stjórnvalda, en boðaður hefur verið fjöldafundur í Hong Kong í dag.

Hong Kong er sjálfstjórnarsvæði sem færðist aftur undir kínversk yfirráð árið 1997, en þar með lauk 156 ára yfirráðum Breta í borginni.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert