Ekki í stjórn með SD

Stefan Löfven, formaður Jafnaðarmannaflokks Svíþjóðar, ætlar að hefja stjórnarmyndunarviðræður í dag en flokkur hans fór með sigur af hólmi í sænsku þingkosningunum í gær. Fékk flokkurinn 31,2% atkvæða. Löfven, sem tók við formannssæti flokksins árið 2012, segir að ekki komi til greina að mynda ríkisstjórn með öfgaflokknum Svíþjóðardemókrötum (SD) en flokkurinn fékk 12,9% atkvæða og er þriðji stærsti flokkur landsins.

Frederik Reinfeldt, formaður Hægri flokksins og forsætisráðherra, tilkynnti stuðningsmönnum sínum í nótt að hann myndi óska eftir afsögn ríkisstjórnar sinnar í dag og eins myndi hann láta af starfi formanns flokksins. Hægri flokkurinn fékk 23,2% atkvæða í gær.

Fylgi rauðgrænu flokkanna – Jafnaðarmannaflokksins, Græna flokksins og Vinstriflokksins er 43,7 prósentustig en borgaraflokkarnir: Hægriflokkurinn (Moderatarna), Frjálslyndi flokkurinn, Miðflokkurinn og Kristilegir demókratar fengu 39,3% atkvæða.
Jafnaðarmannaflokkurinn var eitt sinn einn af öflugustu stjórnmálaflokkum Evrópu og var við völd í 65 ár af 78 á árunum 1932 til 2010. Flokkurinn fékk 30,7% atkvæða í síðustu kosningum og það var minnsta fylgi hans í þingkosningum frá árinu 1920, segir í grein sem Bogi Þór Arason ritaði í Morgunblaðið á fimmtudaginn um sænsk stjórnmál.

Sigur borgaralegu flokkanna í kosningunum fyrir fjórum árum markaði tímamót í sænskum stjórnmálum. Það var í fyrsta skipti í tæp 80 ár sem stjórn borgaralegra flokka í Svíþjóð hélt velli eftir að hafa setið eitt kjörtímabil.

Málefni hælisleitenda hafa verið á meðal helstu deilumálanna í kosningabaráttunni í Svíþjóð vegna metfjölda hælisleitenda í ár. Svíþjóð veitti fleiri flóttamönnum hæli miðað við höfðatölu en nokkurt annað Evrópuland á síðasta ári og búist er við að alls verði hælisleitendurnir um það bil 80.000 í ár.

Umsóknir 24.015 hælisleitenda voru samþykktar í Svíþjóð á síðasta ári en 20.990 umsóknum var synjað. 53% umsóknanna voru samþykkt, en í löndum Evrópusambandsins var hlutfallið 34% að meðaltali. Flestir hælisleitendanna voru Sýrlendingar, fólk án ríkisfangs eða Erítreumenn.

Alls sóttu 435.000 manns um hæli í ESB-löndunum á síðasta ári, þar af 29% í Þýskalandi, 15% í Frakklandi, 13% í Svíþjóð, 7% í Bretlandi og 6% á Ítalíu.

Svíþjóðardemókratarnir eru flokkur þjóðernissinna, stofnaður árið 1988. Jimmie Åkeson hefur verið talsmaður hans frá árinu 2005. Flokkurinn á rætur að rekja til þjóðernissinnaðra hreyfinga sem voru sakaðar um nýnasisma og kynþáttafordóma. Catharine Strandquist, forystumaður flokksins í Halmstad, sagði af sér nýlega eftir að birtar voru myndir af henni með armbindi nasista.
Stefan Löfven
Stefan Löfven AFP
Frederik Reinfeldt
Frederik Reinfeldt AFP
Jimmie Åkeson, leiðtogi SD
Jimmie Åkeson, leiðtogi SD AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert