Loftslagssamstaða um allan heim

Loftslagsgöngur voru haldnar í 2.700 borgum og bæjum í 161 landi í dag og markmið þeirra er að fá ráðamenn til þess að axla ábyrgð í lofts­lags­mál­um. Er gang­an hald­in í tengsl­um við lofts­lags­ráðstefnu Sam­einuðu þjóðanna sem hefst á þriðju­dag­inn í New York.

Í Reykjavík mætti töluverður fjöldi í gönguna en gengið var frá horni Frakka­stígs, Kára­stígs og Njáls­götu, rétt hjá sölut­urn­in­um Drek­an­um en skipu­leggj­end­ur göng­unn­ar nefna það svæði til gam­ans Dreka­svæðið. Lá gang­an að Skóla­vörðustíg og niður á Aust­ur­völl. 

Fjölmennustu göngurnar voru meðal annars í Manhattan þar sem fremstir í broddi fylkingar voru eftirlifendur fellibylsins Sandy. Mikið var um skemmtiatriði, listamenn léku listir sínar á strætunum og stórir vagnar, sem allir gengu fyrir bíódísil, óku um borgina, skreyttir litum göngunnar. 

Í Lundúnum voru gestir göngunnar um 40 þúsund, að sögn lögreglunnar. Gengið var framhjá þinghúsinu, Downingstræti (íbúð forsætisráðherra Bretlands) og orku- og loftslagsbreytingaráðuneytinu. 

Í Melbourne í Ástralíu mátti sjá bregða fyrir stóru líkneski af Tony Abbott, forsætisráðherra landsins, í göngunni. 

Í næstu viku munu 121 þjóðarleiðtogar hittast í New York og ræða loftslagsmál. Ekki eru allir þó spenntir fyrir fundinum, enda mun fundurinn ekki samþykkja neina formlega stefnu, eða hefja formlegar viðræður fyrr en á vettvangi Sameinuðu þjóðanna. Fundur á vegum þeirra fer fram í Líma í Perú eftir tvo mánuði. Þar munu leiðtogarnir leitast við að ná samkomulagi um frekari takmarkanir á losun gróðurhúsalofttegunda. Vonast umhverfisverndarsinnar til þess að samkomulag liggi fyrir eftir fundinn í Líma, og að hægt verði að samþykja stefnuna á loftslagsráðstefnu í París á næsta ári. 

Sjá umfjöllun The Guardian um göngur dagsins. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert