Binda vonir við forsetafrúna

Í Afganistan eru konur lítt áberandi á opinberum vettvangi en með nýjum forseta landsins gæti orðið  breyting þar á. Ashraf Ghani sór embættiseið í morgun og vakti þar athygli að hann talaði um eiginkonu sína, Rula Ghani, við athöfnina.

Rula Ghani hefur þegar brotið nokkrar forboðnar reglur, svo sem að fylgja eiginmanni sínum á kosningaferðalaginu og eins flutti hún ræðu honum til stuðnings.

Ashraf Ghani hefur ítrekað sagt að hann vilji að konur fái stærra hlutverk í afgönsku þjóðfélagi og bindur mannréttindafólk vonir við að Rla og Ashraf Ghani eigi í sameiningu eftir að koma á auknum réttindum í þágu kvenna í Afganistan.

„Ég vil nota tækifærið til þess að takka félaga mínum og eiginkonu fyrir hennar stuðning,“ sagði Ghani í morgun.

Hann segir að Rula hafi alltaf unnið með fötluðum, börnum og konum og hann vonist til þess og geri fastlega ráð fyrir því að hún haldi því starfi áfram. 

Rula Ghani er líbönsk/bandarísk en þau kynntust við háskólanám í Beirút snemma á áttunda áratugnum. Þau eiga tvö börn. 

Ghani hafnaði í öðru sæti í fyrri umferð kosninganna en fór með sigur af hólmi í seinni umferðinni og er talið að það hafi verið fyrir stuðning kvenna. Hamid Karzai sem nú lét af embætti sást nánast aldrei í fylgd eiginkonu sinnar, Zhinat.

Þegar talibanar voru við völd í Afganistan, 1996-2001, var stúlkum bannað að ganga í skóla og konur máttu ekki sjást utandyra nema þær væru klæddar í búrkur og í fylgd karlmanns.

Forsetahjónin í Afganistan Ashraf Ghani og Rula Ghani
Forsetahjónin í Afganistan Ashraf Ghani og Rula Ghani AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert